Search
Close this search box.

Líf Magneudóttir: Oddvitaumræða um fjárhagsáætlun borgarinnar

Deildu 

Ágæti forseti, borgarfulltrúar og kæru Reykvíkingar –

1. desember er merkilegur dagur fyrir margar sakir.

Í dag fögnum við því að Ísland varð fullvalda fyrir 102 árum. Þá var nú heldur betur öðruvísi um að lítast í Reykjavík og höfuðstaðurinn á barmi þess að verða höfuðborg enda bjuggu hér flestir landsmenn og hér var aðstetur helstu menninga- og menntastofnana landsins og auðvitað Alþingis. Umbreytingin sem Reykjavík hefur gengið í gegnum síðan þá – á rúmlega mannsævi – er ótrúleg. Ljósmyndir, ritaðar heimildir, söfn og ýmsir munir og mannvirki færa okkur samanburðinn.

Í dag er líka alþjóðlegur dagur alnæmis sem er helgaður fræðslu og vitundarvakningu um eina af skæðustu veirum sem heimsbyggðin hefur þurft að glíma við og því að uppræta fordóma og bábiljur um HIV-veiruna og þau sem hafa smitast af henni. Á þessum degi hugsa ég líka hlýlega og með söknuði til þeirra sem ég þekkti og létust af völdum alnæmis en um leið gleðst ég yfir öllum þeim vísindalegu framförum sem gerir þeim sem smitast og eru smituð kleift að lifa eðlilegu lífi með veirunni. Okkur fleytir sem betur sífellt fram. (einkunarorð hans í ár er samstaða, sameiginleg ábyrgð og seigla.)

Í dag leggjum við líka fram fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Og þó svo að við gerum það ár hvert þá gerum við það sjaldnast 1. desember. Vinnan í ár og allur undirbúningur hefur líka verið öðruvísi en við höfum átt að venjast. Áhrifa kórónuveirunnar gætir allsstaðar í samfélaginu og hafa afleiðingar hennar markað djúpstæð spor á borgarbraginn, líf fólks, viðurværi þess og umhverfi. Ástandið hefur því kallað á gerólíka nálgun okkar, endurmat og endurskipulagningu á vinnu okkar við gerð þeirrar fjárhagsáætlunar og fimm ára áætlunar sem við leggjum fram og ræðum í dag.

Það er mín skoðun að sú vinna sem sem hefur átt sér stað allt frá upphafi faraldursins hafi  skilað sér í enn betri og kröftugri framtíðarsýn með áherslu á sjálfbært samspil fólks og umhverfis – hið manngerða og hið náttúrulega – og getur þessi sýn, og þær leiðir sem við leggjum til, fært okkur gerbreytta samfélagsgerð og stórtækar framfarir fyrir Reykjavík og Reykvíkinga þegar fram í sækir.

Forseti góður –

Í fyrsta sinn í sögu borgarstjórnar leggjum við fram tillögu að fjármála- og fjárfestingastefnu Reykjavíkur sem nær til tíu ára og er samofin Græna planinu. Í henni blasir við sú framtíðarsýn okkar sem að henni stöndum að tekjufalli verði ekki mætt með niðurskurði, uppsögnum eða þjónustuskerðingu og háum gjaldskrám. Við verjum okkar mikilvægustu grunnstofnanir og gefum verulega í fyrri áform okkar um stórfellda innviðauppbyggingu og uppbyggingu fjölbreytts húsnæðis í umhverfisvænum hverfum. Samfélagslega mikilvægum og umhverfisvænum verkefnum verður flýtt og önnur búin til. Ný aðgerðaráætlun í loftslagsmálum verður síðan laglínan sem allt dansar eftir. Það er mikilvægt að hafa skýr stefnumið í stjórnmálum og það er jafnvægislist að læra af mistökum fortíðar, endurtaka það vel er gert en vera tilbúin og þora að feta nýjar slóðir í átt að stefnumiðunum.

Þetta tel ég m.a. vera verkefni okkar í borgarstjórn. Nú ríður á að halda halda hausnum köldum og finna bæði nýjar og gamlar leiðir sem skila okkur heilu og höldnu út úr þessu ástandi og koma í veg fyrir langtíma afleiðingar. Til þess þurfum við að halda vel á spöðunum, skilgreina verkefnin vel í upphafi, fylgja þeim eftir og meta þau reglulega. Takist okkur að framfylgja þessu getur Reykjavík orðið ein umhverfisvænsta og lífvænlegasta borg á norðurhveli jarðar.

Vissulega er Reykjavíkurborg að fara að skuldsetja sig og taka lán. Eins og ríkið. Eins og önnur sveitarfélög allt í kring. En við höfum líka gert áætlanir hvernig við réttum úr kútnum aftur. Og samanborið við önnur nærliggjandi sveitarfélög þá má halda því til haga að við erum betur í stakk búin að takast á við öll þessi krefjandi verkefni sem við höfum fengið í fangið einmitt vegna ráðdeildar og fjármálastjórnunar síðustu ára.

Þó skuldasöfnunarplata Sjálfstæðisflokksins og annarra lítilla flokka í borgarstjórn sé komin á fóninn þá held ég að fáir séu að hlusta. Borgarbúar skilja og vilja að stjórnvöld grípi inn í og taki höggið. Verji samfélagið. Bregðist við. Snúi vörn í sókn. Eins og við sem myndum þennan meirihluta erum að gera. Ég held að fólk hafi ekki þolinmæði núna til að hlusta á sama safalausa staglið um lægri skatta og hræðilega skuldasöfnun borgarinnar. Ég held að fólk vilji vita hvað það fær. Fólk vill tala um framtíðina – það vill vera og gera. Það vill sjá framfarir og finna fyrir þeim. Borgarbúar vilja sjá samstöðu um góð mál og að borgarstjórn geti unnið saman. En kannski er of til mikils mælst. Ég er auðvitað búin að átta mig á að hægrimenn í borginni vilja alltaf lækka skatta af því að þeir skilja ekki konseptið að hjálpast að… og líka náttúrlega af því að þetta er gamalkunn tugga og þá þurfa þeir ekki að hugsa skapandi meðan þeir geta japlað á henni.

Forseti, borgarfulltrúar og Reykvíkingar

Daginn sem Ísland varð fullvalda ríki var ekki mikið um hátíðarhöld þótt hinni nýi fáni væri í fyrsta sinn dreginn að húni. Reykjavík var sérlega hart leikin og margir höfðu dáið í skæðri inflúensu sem var ranglega kölluð spænska veikin þótt hún væri ekki upprunnin á Spáni. Þótt langþráðu fullveldi væri náð voru margir vondaufir um framtíðina og Reykjavík var lýst sem draugabæ.

Núna gengur líka skæð inflúensupest sem hefur sett sitt mark á mannlífið, bæði hér í borginni og annars staðar á landinu rétt eins og í öðrum löndum. Við vitum það samt, að rétt eins og fyrir rúmri öld, mun Reykjavík ná vopnum sínum aftur. Hún stóðst þá þolraun og aðrar sem á hana hafa verið lagðar síðustu hundrað ár og hún á eftir að vaxa og dafna sem fyrr með framlagi og tilveru fólksins sem í henni lifir.

Að lokum langar mig að senda mínar einlægustu þakklætiskveðjur til alls starfsfólks borgarinnar sem allt er mikilvægt, hvert í sínu, ómissandi og gefandi í sínum störfum. Það eru forréttindi að fá að starfa með og við hlið ykkar sem brennið fyrir því sem þið gerið og leggið lóð ykkar á vogaskálarnar til að búa til fallegt og gott samfélag.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG í Reykjavík.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search