Eitt af þeim málum sem mikilvægast er að halda á lofti er líffræðileg fjölbreytni. Undir mitt ráðuneyti heyra m.a. málefni sjávarútvegs og landbúnaðar auk skógræktar og landgræðslu. Þar eru snertifletirnir við líffræðilega fjölbreytni, í löggjöf og reglusetningu um nýtingu auðlinda hafs og lands. Umræðan um líffræðilega fjölbreytni hefur bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi verið minni en um hina stóru áskorun okkar tíma, loftslagsbreytingar. Enda er einfaldara að sjá ástæður þess, í hvert skipti sem við dælum jarðefnaeldsneyti á bílinn vitum við að við erum að dæla tilteknu magni af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Samspil hegðunar og líffræðilegrar fjölbreytni er ekki eins augljóst við fyrstu sýn.
Á virkni vistkerfa hvíla lífsgæði
Í sinni einföldustu mynd snýst baráttan gegn hnignun líffræðilegrar fjölbreytni um það að viðhalda virkni vistkerfa. Þá baráttu þekkja Íslendingar vel. Við höfum mörg dæmi úr sjó af því hvað það þýðir þegar virkni vistkerfa hrynur. Síldin sem hvarf. Við höfum tapað en við höfum líka sigrað. Nýting Íslendinga á nytjastofnum sjávar var á þann hátt að ef ekki hefði verið gerð breyting á hefðu okkar mikilvægustu nytjastofnar e.t.v. hrunið. Í áranna rás hefur byggst upp þekking á því hvernig við stýrum nýtingu. Við eigum líka dæmi á landi. Síðastliðið haust heimsótti ég Gunnarsholt og fékk þar leiðsögn um kornakra bóndans í Laxárdal, en þar er nú gjöfulasta kornræktarland á Íslandi þar sem áður voru eyðisandar. Þar var þróun snúið við með markvissum aðgerðum sem endurheimtu virkni vistkerfa. Einnig má halda til haga endurheimt vistkerfa á borð við votlendi og birkiskóga.
Mikið verk óunnið
Þannig snýst baráttan um líffræðilega fjölbreytni um meira en aðgerðir til að friða tiltekin hlutföll af landsvæði og hafi fyrir tiltekinni nýtingu. Hún snýst ekki síður um að hlúa að virkni vistkerfa sem við reiðum okkur á fyrir hagsæld okkar. Drjúgur hluti af gjaldeyristekjum og þar með lífsgæðum okkar byggist á virkni vistkerfa hafsins og þeirri vistþjónustu sem þau veita. Við erum alls ekki komin nógu langt í umræðu eða aðgerðum á þessu sviði. Það eru þó að ég held öll skilyrði fyrir hendi til að það geti breyst. Enda eigum við einfaldlega svo mikið undir þegar kemur að skynsamlegri nýtingu náttúrunnar, sem viðheldur virkni vistkerfa og endurheimtir þau sem hrunin eru. Við munum á næstu misserum stíga skref til þess að innleiða betri stýritæki til að tryggja sjálfbæra nýtingu og verndun vistkerfa, hvort sem er á hafi eða á landi.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra