Ádögunum voru kynntar tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2020 og er afar ánægjulegt að sjá að fyrir hönd Íslands sé ferðaskrifstofan Borea Adventures á Ísafirði tilnefnd. Þema umhverfisverðlaunanna í ár er líffræðileg fjölbreytni og endurspeglar og styður við 14. og 15. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um líf í hafi og á landi. Þema verðlaunanna að þessu sinni á vel við en líffræðileg fjölbreytni er undirstaða velferðar og grundvöllur tilveru okkar en með heilbrigði vistkerfa og fjölbreytileika innan tegunda er áfram tryggt að þróun verði meðal tegunda. Margt getur ógnað líffræðilegum fjölbreytileika og er það flest af manna völdum svo sem með búsvæðaeyðingu, innfluttum og ágengum tegundum, ofnýtingu landsvæða og með loftslagsbreytingum. Það er því mikilvægt að hafa hugfast og minna á þýðingu líffræðilegs fjölbreytileika. Þess vegna renna umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í ár til einhvers sem hefur lagt eitthvað sérstakt af mörkum til verndar fjölbreytileika í náttúrunni.
Borea Adventures er vel að tilnefningunni komið en hjá fyrirtækinu er unnið að verndun fjallarefsins með vísindafólki frá Náttúrufræðistofnun og Melrakkasetri Íslands til þess að tryggja að starfsemin fari fram bæði á faglegan og sjálfbæran hátt. Fjallarefurinn, einnig nefndur heimskautarefur, er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Hann gegnir mikilvægu hlutverki í íslenskri náttúru vegna þess að hann er eina rándýrið sem er til staðar á náttúrlegum forsendum. Ferðaskrifstofan hefur sýnt að með starfsemi sinni geti verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbær ferðamennska farið saman. Með því að leggja áherslu á mikilvægi tegundarinnar fyrir vistkerfið á Íslandi og takast á við fordóma um að fjallarefurinn sé meindýr sem eyðileggur náttúruna vill Borea Adventures snúa almenningsálitinu á sveif með þessu litla rándýri. Það verður því spennandi að sjá hvort íslenski fjallarefurinn fari með sigur úr býtum þann 27. október næstkomandi þegar vinningshafinn verður kunngerður.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.