PO
EN

Lifum með veirunni

Deildu 

Síðan í lok febrúar á þessu ári höfum við á Íslandi glímt við Covid-19. Glíman hefur falið í sér áskoranir fyrir samfélagið allt, þar á meðal heilbrigðiskerfið og efnahagskerfið, og hefur haft í för með sér miklar breytingar á daglegu lífi okkar allra. Meta þarf stöðuna á hverjum degi og sóttvarnalæknir og heilbrigðisyfirvöld eru sífellt að meta ástandið, bregðast við, upplýsa og fræða almenning. Því munum við þurfa að halda áfram enn um sinn því íslenskt samfélag er nú að hefja annan kafla í glímunni við Covid-19.

Líklegt er að beita þurfi aðgerðum bæði innanlands og á landamærum um langt skeið til að hefta útbreiðslu veirunnar. Ljóst er að veiran mun ekki hverfa á næstunni og við sem samfélag, og í raun heimurinn allur, þurfum að finna leið til þess að lifa með veirunni en á sama tíma halda smitum í lágmarki. Veiran er enn í vexti víða um lönd og sums staðar er verið að herða reglur aftur eins og hérlendis, eftir að slakað hafði verið á þeim, í þeim tilgangi að takmarka útbreiðslu veirunnar.

Sóttvarnalæknir hefur lagt áherslu á að halda beri áfram skimunum á landamærum auk þess sem nú eru í gildi umtalsverðar takmarkanir á samkomuhaldi í samfélaginu. Við erum að beita skimunum, sýnatökum, smitrakningu, einangrun og sóttkví líkt og gert hefur verið allt frá upphafi faraldursins. Sú nálgun gafst vel í fyrstu bylgju faraldursins og við munum beita þeirri nálgun áfram.

Með vísan til þess hversu stórt samfélagsverkefni er um að ræða liggur fyrir að það þarf að efna til samráðs helstu lykilaðila um stefnu til lengri tíma varðandi áframhaldandi aðgerðir gegn Covid-19. Því hef ég ákveðið að boða til samráðsvettvangs í formi vinnustofu þann 20. ágúst nk. Þar verður rætt hvernig móta megi aðgerðir og stefnu til lengri tíma litið í glímu okkar við veiruna. Heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að undirbúningi vinnustofunnar og mun bjóða til þessa vettvangs innan skamms í samstarfi við önnur ráðuneyti og stjórnvöld. Í framhaldi af vinnustofunni verður komið á fót fimm manna verkefnateymi til að annast framkvæmd aðgerða vegna Covid-19. Teymið mun starfa undir stjórn sóttvarnalæknis út árið 2021.

Ef við ætlum að lifa með veirunni um ókomna framtíð verðum við að grípa til aðgerða sem taka tillit til sóttvarnarsjónarmiða, en líka lýðheilsuþátta, heilsufarslegra þátta og efnahagslegra þátta og það verður að vera gerlegt að halda þessum aðgerðum til streitu til langs tíma. Stóra spurningin er sú hvernig best sé að gera það, og samráðsvettvangurinn sem framundan er er einn liður í því að við sem samfélag komumst að niðurstöðu um það.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search