Search
Close this search box.

Liggur okkur á?

Deildu 

Það er áhugavert að fylgjast með vaxandi umræðu að undanförnu um stöðuna í skólakerfinu. Nýlegar rannsóknir draga fram að áhrifin á styttingu framhaldsskólans á sínum tíma hafi e.t.v. ekki lukkast sem skyldi. Einhver mæltu með ákvörðuninni með þeim rökum að með styttingu framhaldsskólans kæmust þessir einstaklingar fyrr út á vinnumarkaðinn. Það lægi á því. Og nú þegar vísbendingar eru um að meðaleinkunnir nemenda á stúdentsprófi hafi lækkað og nemendurnir komi verr undirbúnir inn í háskólana þá er eðlilegt að spyrja hvort þessi ákvörðun hafi verið rétt á sínum tíma. Hefði verið hægt að standa öðru vísi að henni? Eða skipti kannski öllu máli að fjölga höndum á vinnumarkaðnum á kostnað gæða námsins? Svo berast okkur upplýsingar um að vanlíðan barna og ungmenna hafa aukist með tilheyrandi þörf á stuðningi og í einhverjum tilfellum lyfjagjöf. Er hraði samfélagsins mikilvægari en svo að við viljum búa þannig um hnútana að unga fólkinu okkar geti liðið vel, fái þau tækifæri sem þau óska sér og geti gert hlutina á sínum hraða?

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Samtök íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) hafa óskað þess að mat verði lagt á áhrif styttingar námstímans í framhaldsskóla á starfsemi framhaldsskóla og háskóla en ekki síst líðan ungmenna. Þegar viðvörunarljósin kvikna svo víða þá er augljóst að mínu mati að staldra þurfi við og kafa ofan í þessa ákvörðun. Er ástæða til þess að vinda ofan af þessu og lengja námstímann að nýju? Ættum við að horfa í einstaka námsgreinar sem þyrfti að þykkja frekar eða lengja í og samhliða frelsi skólanna sjálfra í að marka sér frekari sérstöðu eins og dæmi eru um víða um land?

Nú er svokölluð kjördæmavika og þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs einsetti sér að nota vikuna til þess að heimsækja alla framhaldsskóla á landinu. Í heimsóknunum hittum við fulltrúa nemenda, kennara og skólastjórnendur, kynnum okkur stöðu einstakra skóla og hlustum á þeirra sjónarmið m.a. m.t.t. reynslunnar af styttingu námstímans í framhaldsskóla, líðan nemenda og starfsfólks og starfsaðstæðna. Sjónarmiðin eru ólík, rétt eins og einstaklingarnir sem við hittum, en þó má greina sömu áhyggjurnar af stöðunni. Einhver eru sammála því að stytting námstíma í framhaldsskóla hafi komið hluta nemendanna vel, sér í lagi þeim sem stóðu vel fyrir, en önnur eru á því að með styttingunni hafi nemendur verið sviptir tækifærum til þess að gera hlutina á sínum hraða, með sínum jafnöldrum í því umhverfi sem hentar. Ekkert liggi á að nemendur komist út á vinnumarkaðinn.

Það eru forréttindi okkar sem erum í pólitík að geta farið um allt land og fá hitta allt þetta fólk. Alls staðar eru móttökurnar hlýjar og samtölin góð og gagnleg.

Höfundur er þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search