Search
Close this search box.

Líkan um áhrif bólusetningar á áhættustig vegna COVID-19

Deildu 

Hröð bólusetning elstu aldurshópanna dregur mjög úr fjölda þeirra sem veikjast lífshættulega af COVID-19. Hermilíkan sem þróað hefur verið á vegum forsætisráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis gerir það mögulegt að skoða líklegar sviðsmyndir um hvernig áhættustig vegna faraldursins breytist eftir því sem bólusetningum miðar áfram.

Markmið stjórnvalda með aðgerðum vegna heimsfaraldurs COVID-19 er að lágmarka það tjón sem af honum hlýst fyrir íslenskt samfélag. Í því felst fyrst og fremst að vernda líf og heilsu landsmanna en einnig að lágmarka efnahagsleg og samfélagsleg áhrif faraldursins.

Í þessu ljósi er mikilvægt að fram fari stöðugt mat á þeirri hættu sem af faraldrinum stafar, þar sem fjölmargir þættir koma til álita. Þar á meðal er að meta líkur á því að nýjar bylgjur faraldursins brjótist út, mat á því hversu stórar slíkar bylgjur gætu orðið, hversu margir eiga á hættu að verða alvarlega veikir af sjúkdómnum sjálfum eða eftirköstum hans og hversu vel innviðir heilbrigðiskerfisins eru í stakk búnir fyrir útbreiddan faraldur.

Undanfarna mánuði hefur átt sér stað vinna á vegum forsætis- og heilbrigðisráðuneytis sem miðar að því að skoða líklegar sviðsmyndir um hvernig áhættustig vegna COVID-19 breytist þegar áhrif bólusetningar kemur fram. Í því skyni hefur verið þróað hermilíkan um smitdreifingu í bólusettu samfélagi. Líkanið gefur mynd af því hvernig breytingar verða á samsetningu þess hóps sem gæti sýkst í faraldri sem upp kemur eftir að bólusetning er hafin. Við mat á líklegum afleiðingum faraldurs er unnið með teymi úr Háskóla Íslands sem hefur þróað spálíkan um innlagnir fyrir Landspítalann.

Vitað er að beinar afleiðingar COVID-19 veikinda eru mjög tengdar aldri sjúklinga og stafar öldruðum margfalt meiri og bráðari hætta af sjúkdóminum heldur en yngra fólki. Afleiðing af þessu er að hröð bólusetning elstu aldurshópanna dregur verulega úr þeim fjölda sem líklegur er til þess að veikjast lífshættulega af sjúkdóminum. Eigi að síður er ljóst að afleiðingar af útbreiddum faraldri á heilbrigðiskerfið yrðu miklar, jafnvel þótt vel takist að verja elstu hópana. 

Árangur Íslands hingað til helgast af góðri samstöðu um skynsamlegar sóttvarnaaðgerðir og eru innanlandssmit nú í algjöru lágmarki. Aukin vörn í formi bólusetningar mun smám saman draga úr nauðsyn varúðarráðstafana.

Ljóst er að verulegur ábati af bólusetningarvernd mun koma fram í vor, eða snemmsumars, þegar búið verður að bólusetja þá hópa sem mest hætta stafar af sjúkdóminum.

Áfram er fylgst mjög náið með þróun mála alþjóðlega. Einnig er nauðsynlegt að fylgjast með útbreiðslu ólíkra afbrigða veirunnar og meta að hversu miklu leyti nauðsynlegt gæti verið að aðlaga sóttvarnaaðgerðir að nýrri þekkingu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Frá upphafi faraldursins höfum við átt náið og gott samstarf við okkar færustu sérfræðinga. Eftir að bóluefni komu fram hillir undir það að við getum smám saman snúið aftur til eðlilegra lífs. Enn er töluvert í land, en með áframhaldandi þrautseigju og samstöðu mun það gerast um leið og áhættan af farsóttinni hefur verið takmörkuð svo mjög að hún teljist ekki lengur ógna lífi og heilsu landsmanna.“

Meðfylgjandi er hermilíkan um smitdreifingu í bólusettu samfélagi.

Forsendur líkans um áhrif bólusetningar á áhættustig vegna COVID-19

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search