Ríkið er eigandi að stærstum hluta íslenska fjármálakerfisins. Sú staða gefur okkur færi á því að hugsa upp á nýtt hvernig við teljum réttast að fjármálakerfið sé, þjóðinni til heilla. Loftslagsváin er stærsta viðfangsefni stjórnvalda í dag. Við eigum að hugsa allar okkar ákvarðanir út frá henni, þar með talið þegar kemur að fjármálakerfinu.
Víða er unnið að góðum verkefnum sem miða að því að gera samfélagið kolefnishlutlaust og enn víðar eru góðar hugmyndir sem ekki komast til framkvæmda, sumar vegna fjárskorts. Ríkið styrkir við nýsköpun og rannsóknir í þeim efnum. En hvers vegna ekki að ganga skrefinu lengra og nýta bankakerfið sem hefur hvort eð er það hlutverk að lána peninga til verkefna almennings og atvinnulífs?
Hvers vegna ekki að stofna fjárfestingarbanka loftslagsmála sem hefur lánastefnu sem tekur meira tillit til áhrifa á kolefnishlutleysi en arðsemiskröfu? Sem lánar fyrst og fremst til verkefna sem skila árangri í að gera Ísland kolefnishlutlaust, verkefna sem eiga kannski óhægt um vik að fá lán hjá hefðbundnum lánastofnunum.
Við gætum horft til Norðurlandanna hvað fyrirmyndir varðar. Norræni fjárfestingarbankinn hefur til dæmis sett sér sjálfbærnimarkmið sem hafa áhrif á útlánastefnuna. Að ekki sé minnst á Norræna umhverfisfjárfestingasjóðinn NEFCO. Hann lánar til verkefna sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Ísland er aðili að báðum þessum stofnunum. Hví ekki að stofna eina slíka hér heima fyrir?
Hvítbók um fjármálakerfið, sem kom út í fyrra, kom inn á ýmislegt ágætt varðandi bankakerfið, en heldur fannst mér afgreiðslan á samfélagsbanka rýr þar. Samfélagsbanki getur nefnilega verið alls konar. Hann getur verið fjárfestingarbanki loftslagsmála, eða umhverfisfjárfestingarsjóður. Hann getur líka hugað að byggðamálum í lánastefnu sinni, lánað inn á svæði sem aðrir bankar gera trauðla í dag. Eða hann getur gert bæði.
Að láta arðsemiskröfu eina ráða er gamaldags hugsun, enda þarf að taka kolefnisverð inn í alla útreikninga. Fjárfestingabanki loftslagsmála mundi gera það.