„Heimurinn hefur aldrei orðið vitni að viðlíka ógn við mannréttindi,“ sagði Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður Mannréttindaráðs SÞ í opnunarerindi sínu við upphaf 42. fundar Mannréttindaráðsins í septemberbyrjun.
Ógnin sem Bachelet vísar í eru loftslagsbreytingar. Þau eru orðin ein aðal uppspretta borgarastríða og átaka. Réttindi frumbyggja til lífs og viðurværis er ógnað hvort sem er með skógareldum í Amazon-skógunum eða bráðnun íss við Norðurskautið. Umhverfisverndarsinnar búa við stöðugt meiri ógnanir og jafnvel árásir, sérstaklega í Suður-Ameríku og opinber umræða sem niðurlægir ungt fólk sem hefur áhyggjur af loftslaginu, framtíð sinni og komandi kynslóða er orðin algengari. Fleiri fellibyljir og fjölgun aftakaveðra á borð við það sem gerðist nýlega á Bahama-eyjum, eyjum sem liggja lágt yfir sjávaryfirborði, drepur ekki bara íbúa heldur neyðir fólk til að flýja heimkynni sín.
Fólk er líka að flýja vegna veðrabreytinga í kringum hið víðáttumikla Sahel steppusvæði Afríku við suðurjaðar Sahara-eyðimerkurinnar, þar sem sífelld harðnandi lífsbarátta vegna vaxandi þurrka hefur meiri áhrif á stjórnmálaóvissu og flótta íbúa frá svæðinu en áður. Fjöldi flóttafólks sem flýr í leit að betra lífi með oft vonlausum og ömurlegum árangri yfir sjálft Miðjarðarhafið, hefur þá þegar flúið yfir sjálfa Sahara-eyðimörkina. Þetta eru ekki auðveldar hindranir á vegi fólks sem er að flýja óbærilegt líf vegna loftslagsbreytinga en sýnir neyðina sem fólk býr við. Reyndar hafa milljónir manna í heiminum nú þegar þurft að flýja heimkynni sín vegna afleiðinga loftslagsbreytinga hvort sem það eru alvarlegri þurrkar en áður, sífellt fleiri og kraftmeiri aftakaveður, flóð, fleiri og umfangsmeiri fellibyljir en áður eða skógareldar sem geisa bæði vegna þurrka og hita en líka af mannavöldum. Ef það er ekki neyðarástand, hvað í ósköpunum er þá neyðarástand?AUGLÝSING
Nýlega veittu mannréttindasamtökin Amnesty International loftlagsaðgerðasinnanum Gretu Thunberg og loftlagsbaráttuhreyfingunni „Fridays for future“ verðlaun fyrir að vekja athygli á og krefjast þess að róttækari opinberar aðgerðir þarf til að koma í veg fyrir enn meiri hlýnum loftlagsins. Og hér á Íslandi, veitti Íslandsdeild Amnesty fjórum samtökum ungs fólks verðlaun fyrir baráttu sína fyrir róttækari aðgerðum gegn hamfarahlýnum. Þessi verðlaun virtra alþjóðlegra mannréttindasamtaka staðfesta enn frekar hin nánu tengsl loftslagsbreytinga og mannréttindabaráttu. Og á vettvangi Evrópuráðsþingsins, einnar öflugustu alþjóðastofnunar á sviði mannréttinda sem Ísland á aðili að, eru mannréttindi út frá loftslagsbreytingum stöðugt fyrirferðarmeiri í ályktunum og þingmálum.
Stríðsátök vegna loftslagsbreytinga
Styðjum og bregðumst við kröfum ungs baráttufólks
Loftslagsbreytingar eru líka að verða nátengdari stríðsátökum og afleiðingum þeirra. Fólk flýr heimkynni sín vegna loftslagsbreytinga og mikilla breytinga á veðurfari en líka átakanna í kjölfarið á veðurfarsbreytingum. Rekja má 40 prósent af öllum vopnuðum átökum undanfarin ár og áratuga í heiminum til loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra samkvæmt nýjustu tölum Sameinuðu þjóðanna. Og því miður er það langoftast fátækustu og viðkvæmustu íbúar heims, konur og börn, sem eru helstu fórnarlömb átaka sem orsakast af enn grimmilegri baráttu um þverrandi auðlindir og hraðari loftslagsbreytinga. Ríkar þjóðir hafa því miður brotið á þeim fátækari með því að ýta mengandi starfsemi til þróunarríkja og stuðlað þar með að vítahring mengunar og ójöfnuðar sem ýtir íbúum þessa ríkja á flótta og vergang. Stríðsrekstur er því bæði afleiðing baráttu um þverrandi auðlindir en veldur því líka að stríðshrjáðar þjóðir og samfélög eru engan vegin í stakk búin til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, eins og sjá má t.d. í stríðshrjáðu Afganistan, Sýrlandi og mörgum þróunarríkjum.
„Sú pólitík sem við þurfum á að halda til að taka á þessu hættuástandi er ekki til staðar í dag,“ segir Greta Thunberg. „Það er ástæða þess að hvert og eitt okkar verður að þrýsta á þá sem bera ábyrgðina frá öllum mögulegum stöðum og fá fólk til að bregðast við.“
Tökum þessi orð til okkar allra. Hlustum á, styðjum við en ekki síst, bregðumst við kröfum ungs baráttufólks um allan heim fyrir róttækari aðgerðum á hvareina í samfélagi okkar, bæði hér heima og í alþjóðastarfi, til að hindra enn frekari loftslagsbreytingar. Það er ekkert um annað að velja.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, höfundur er þingmaður og varaforseti Evrópuráðsþingsins.