Search
Close this search box.

Loftslagsmál: Ríkið fari á undan með góðu fordæmi

Deildu 

Vitund fólks um loftslagsbreytingar hefur stóraukist á skömmum tíma. Það er mikilvægt hreyfiafl.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á loftslagslögum þar sem gert verður að skyldu að Stjórnarráðið, stofnanir hins opinbera og öll fyrirtæki í ríkiseigu setji sér loftslagsstefnu og grípi til aðgerða til að draga úr losun og kolefnisjafna starfsemi sína þannig að þau nái kolefnishlutleysi. Þetta markar tímamót. Það er mikilvægt að hið opinbera sýni skýrt og jákvætt fordæmi í loftslagsmálum.

Síðastliðna mánuði hefur vinna staðið yfir við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og á morgun leggjum við forsætisráðherra hana fyrir ríkisstjórn.

Efling vísinda

Verði loftslagsfrumvarpið að lögum verður fest í lög sú skylda ráðherra að láta vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar. Aðlögunaráætlun hefur ekki áður verið unnin fyrir Ísland en á þessu verður nú breyting og málið tekið föstum tökum.

Í frumvarpinu er í fyrsta skipti kveðið á um loftslagsráð í lögum og að gerðar skuli vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag. Þær skulu m.a. taka mið af reglulegum úttektarskýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), og nýjustu og bestu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni.

Stóra verkefnið er auðvitað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda það sem út af stendur með margvíslegum aðgerðum. Til þess þarf skýr markmið og aðgerðir. Mikilvægum aðgerðum í aðgerðaáætlun stjórnvalda hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Nú er sem dæmi skylt að gera ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu, kolefnisgjald hefur verið hækkað og Skipulagsstofnun vinnur að viðauka við Landsskipulagsstefnu þar sem flétta á loftslagsmálum inn í skipulag. Meðal stærstu verkefna þessar vikurnar eru síðan stofnun Loftslagssjóðs í samvinnu við Rannís, vinna við áætlanir um kolefnisbindingu og nánari útfærsla varðandi orkuskipti í samgöngum.

Stjórnvöld hafa tekið loftslagsmálin föstum tökum og svara kalli almennings.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
umhverfis- og auðlindaráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search