Search
Close this search box.

Lög um sorgarleyfi samþykkt

Deildu 

Frumvarp félagsmálaráðherra um sorgarleyfi varð að lögum í gær. Nú verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis.

Meginatriðið er að tryggja foreldrum á vinnumarkaði, sem verða fyrir barnsmissi, rétt til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili. Hámarksgreiðslur í sorgarleyfi vegna barnsmissis verða 600.000 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli og einnig yfir lengra tímabil enda sýna niðurstöður rannsókna fram á mikilvægi þess að einstaklingar sem verða fyrir áföllum í lífinu haldi sambandi við vinnumarkaðinn eins og þeir treysta sér til hverju sinni.

Með lögunum eru áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild viðurkennd óháð fjölskyldugerð og komið til móts við fjölbreytt fjölskyldumynstur í íslensku samfélagi, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.

„Við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að huga sérstaklega vel að stuðningi við börn og barnafjölskyldur í kjölfar þess að barn innan fjölskyldu andast,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í framsöguræðu með frumvarpinu fyrr í vor. „Með því að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis samhliða greiðslum í sorgarleyfi leyfi ég mér að fullyrða að í það minnsta í sumum tilvikum megi koma í veg fyrir mögulegan og/eða varanlegan heilsubrest sem geti meðal annars dregið úr virkni á vinnumarkaði til lengri tíma litið. Á sama tíma og ég tel skipta mestu máli að fólk fái svigrúm til sorgarúrvinnslu þá hef ég líka trú á því að með því að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis megi auka líkur á að viðkomandi eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki virkan þátt í samfélaginu að nýju eftir slíkan missi svo ekki sé talað um þann ávinning sem hlýst af því að veita foreldrum svigrúm til að styðja við eftirlifandi systkin,“ sagði ráðherra enn fremur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search