Search
Close this search box.

Lög um þungunarrof

Deildu 

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur  heilbrigðisráðherra um þungunarrof var samþykkt sem lög frá Alþingi í gær. Markmið laganna er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði laganna.

Lagasetningin á sér töluverðan aðdraganda. Heilbrigðisráðherra skipaði í mars 2016 nefnd sem falið var að vinna að heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975. Að undangengnu samráði, umsagnarferli og gagnaöflun nefndarinnar skilaði hún skýrslu til ráðherra í nóvember 2016. Nefndin lagði meðal annars til að sett yrðu þrenn ný lög í stað eldri laga, þ.e. lög um fræðslu og ráðgjöf varðandi kynheilbrigði, lög um þungunarrof og lög um ófrjósemisaðgerðir.

Frumvarp um þungunarrof sem nú er orðið að lögum grundvallast á vinnu nefndarinnar en rík áhersla var lögð á víðtækt samráð við gerð þess. Í september síðastliðnum var það birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, unnið var úr þeim umsögnum í heilbrigðisráðuneytinu og endanlegt frumvarp af hálfu ráðherra lagt fyrir Alþingi í nóvember þar sem því var vísað til umfjöllunar í velferðarnefnd að lokinni fyrstu umræðu.

Í nýrri löggjöf um þungunarrof felst sú meginbreyting að kona fær fullt ákvörðunarvald um að óska eftir þungunarrofi fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja hennar. Kveðið er á um að þungunarrof skuli helst framkvæmt fyrir lok 12. viku þungunar, til að undirstrika mikilvægi þess að það sé gert eins snemma og mögulegt er, en það dregur ekki úr rétti kvenna til þungunarrofs fram að lokum 22. viku. Eftir lok 22. viku þungunar er einungis heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar og er þá gerð krafa um staðfestingu tveggja lækna á því.

Í lögunum er sérstaklega kveðið á um rétt kvenna á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrof og um aðgengi að framkvæmd þess í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Gerð er krafa um fræðslu um áhættu samfara aðgerðinni og kveðið á um að konu skuli boðið upp á stuðningsviðtal vegna þungunarrofs bæði fyrir og eftir framkvæmd þess.

Við undirbúning að nýrri löggjöf um þungunarrof hefur áhersla verið lögð á að jafnræðis sé gætt og að farið sé að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search