Search
Close this search box.

Lögum um heilbrigðisþjónustu breytt til samræmis við heilbrigðisstefnu

Deildu 

Frumvarp mitt til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 var samþykkt á Alþingi þann 26. júní síðastliðinn. Í júní í fyrra var heilbrigðisstefna til ársins 2030 samþykkt á þinginu en með heilbrigðisstefnu hefur verið mótuð framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem nú hefur verið samþykkt, hefur það aðalmarkmið að fella lög um heilbrigðisþjónustu að heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Þannig er ætlunin að lög um heilbrigðisþjónustu endurspegli þær áherslur sem fram koma í heilbrigðisstefnu.

Meðal markmiða heilbrigðisstefnunnar er að skapa heildrænt kerfi sem ætlað er að tryggja samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæta að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í heilbrigðisstefnu er einnig kveðið á um að löggjöf um heilbrigðisþjónustu skuli vera skýr og kveða afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu og hvernig samskiptum þeirra skuli háttað.

Kjarni breytinganna á lögum um heilbrigðisþjónustu sem nú hafa verið lögfestar felst í því að skilgreiningum á heilbrigðisþjónustu er skipt í þrjú stig, þ.e. fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Fyrir lagabreytinguna var heilbrigðisþjónusta skilgreind sem almenn eða sérhæfð heilbrigðisþjónusta en slíkar skilgreiningar á heilbrigðisþjónustu eru á undanhaldi þar sem heilbrigðisþjónusta er nú að langstærstum hluta sérhæfð. Skipting heilbrigðisþjónustu í fyrrnefnd þjónustustig er í samræmi við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilbrigðisþjónustu. Auk þess er í lögunum eftir samþykkt frumvarpsins kveðið skýrar á um hlutverk og ábyrgðarsvið heilbrigðisstofnana. Gerðar eru breytingar á ákvæðum laganna um framkvæmdastjórnir og jafnframt kveðið á um að á öllum heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur skuli starfa sameiginleg fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á viðkomandi stofnun.

Með lagabreytingunni er skapaður traustari grundvöllur fyrir samhæfingu heilbrigðisþjónustu í landinu og stuðlað að því að landsmenn hafi aðgang að sem bestri þjónustu hvar sem þeir búa. Síðast en ekki síst endurspegla lögin nú þær áherslur sem Alþingi hefur samþykkt og koma fram í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Samþykkt laganna er mikilvægur liður í því stóra verkefni að koma heilbrigðisstefnu til framkvæmda.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search