Search
Close this search box.

Löngu tímabærar ráðstafanir gegn jarðvegsmengun

Deildu 

Við höfum flest gert okkur grein fyrir því að jörðin er eina athvarf okkar og auðlindir hennar síður en svo óþrjótandi. Andrúmsloftið, vatnið, hafið og jarðvegurinn, allt eru þetta undirstöður lífs á jörðinni og það er okkar að tryggja að þær standi ólaskaðar að okkur gengnum. En mörgu okkar mannanna bjástri fylgir mengun, sem við verðum eftir fremsta megni að koma í veg fyrir.

Ný reglugerð sú fyrsta sinnar tegundar

Nú um áramótin tók gildi reglugerð sem hefur það meginmarkmið að uppræta eða draga úr jarðvegsmengun frá hvers konar atvinnustarfsemi og koma í veg fyrir skaðleg áhrif af hennar völdum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík reglugerð er sett á Íslandi.

Mengun í jarðvegi stafar helst frá iðnaði, landbúnaði eða úrgangi. Heilsu manna og dýra getur stafað hætta af henni, t.d. vegna uppgufunar óæskilegra efna, mengaðra vatnsbóla eða beinnar snertingar við mengaðan jarðveg. Þá geta búsvæði lífvera raskast, líffræðilegur fjölbreytileiki minnkað og óæskileg efni safnast upp í lífkerfum.

Svæði með menguðum jarðvegi kortlögð

Hér á landi eru þó nokkur svæði með menguðum jarðvegi, svo sem frá eldri urðunarstöðum, iðnaðarsvæðum, umsvifum setuliðsins eða vegna óhappa. Í reglugerðinni nýju er Umhverfisstofnun falið að halda skrá yfir svæði þar sem mengaðan jarðveg er að finna, eða grunur leikur á að svo sé. Gert er ráð fyrir að skráin verði aðgengileg öllum fyrir lok næsta árs. Þetta getur skipt máli t.d. við breytingar á skipulagi og raunar alla landnotkun. Til dæmis ef byggja á íbúabyggð þar sem eitt sinn var sorphaugur þá þarf að tryggja að svæðið hafi verið hreinsað með viðunandi hætti. Eins er mikilvægt að þessum svæðum fjölgi ekki né að mengunin aukist.

Viðmiðunargildi sett í fyrsta sinn

Í reglugerðinni eru í fyrsta sinn sett fram hámarksgildi þungmálma og lífrænna efnasambanda í jarðvegi hérlendis, á íbúasvæðum annars vegar og atvinnusvæðum hins vegar. Eins er fjallað um jarðveg sem er mengaður af alvarlegum sjúkdómsvöldum, svo sem vegna hræja dýra sem smitast hafa af miltisbrandi eða sauðfjárriðu. Mikilvægt er að ekki sé hróflað við jarðvegi á þeim svæðum og einmitt í því sambandi skiptir skráning Umhverfisstofnunar miklu máli.

Markmið reglugerðarinnar er ekki síður að skilgreina ábyrgð og verksvið þeirra sem eiga að bregðast við þegar og ef jarðvegur mengast. Í megindráttum er það síðan svo að sá sem veldur mengun skal bera kostnaðinn sem af henni hlýst í takti við mengunarbótaregluna.

Breytt hugarfar

Það eru ekki ýkja margir áratugir síðan það var viðtekin venja að brenna sorp á víðavangi og hella spilliefnum í niðurfallið – farvegur fyrir þau kom fyrst fyrir um 30 árum. Víða í iðnaði skorti mengunarvarnabúnað og ýmis mengandi efni voru notuð án umhugsunar. En nú vitum við betur. Það hafa orðið miklar breytingar á hugarfari og mengunarvörnum á undanförnum áratugum. Þessi reglugerð er mikilvægt framlag til frekari mengunarvarna á Íslandi og löngu tímabær. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search