Í lok júní voru lýðheilsuvísar fyrir árið 2020 kynntir. Embætti landlæknis heldur utan um verkefnið um lýðheilsuvísa, en þeir eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Vísarnir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúa hvers umdæmis, og þar með bæta heilsu og líðan þjóðarinnar. Verkefnið um lýðheilsuvísa er dæmi um það hvernig við getum nýtt okkur gögn og tölfræði til þess að efla lýðheilsu og bæta heilbrigðisþjónustu á markvissan hátt.
Lýðheilsuvísarnir eru breytilegir eftir árum og við val á þeim er sjónum einkum beint að þeim þáttum sem hafa áhrif á heilsu og líðan og fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá er leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við. Sem dæmi um atriði sem eru skoðuð má nefna hamingju, einmanaleika, grænmetis- og ávaxtaneyslu, hreyfingu, lyfjanotkun og heilsugæsluheimsóknir.
Í lýðheilsuvísunum fyrir árið 2020 kom meðal annars fram að meira en 60% Íslendinga telja sig mjög hamingjusama og Sunnlendingar einkum. Um 10% landsmanna upplifa oft einmanaleika og yngra fólk finnur frekar fyrir einmanaleika en þeir sem eldri eru. Heldur hefur dregið úr áhættudrykkju fullorðinna en mánaðarleg ölvunardrykkja nemenda í 10. bekk hefur aukist lítillega. Enn dregur úr daglegum reykingum fullorðinna og rafrettunotkun ungmenna.
Tíðni sýklalyfjaávísana til barna undir fimm ára heldur áfram að lækka en töluverður munur er á milli heilbrigðisumdæma. Komum á heilsugæslustöðvar á hvern íbúa heldur áfram að fjölga á landsvísu og er aukin notkun íbúa á heilsugæsluþjónustu mest á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins 14% barna í 5.-7. bekk hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis (a.m.k. 60 mínútur á dag) þrátt fyrir að 2/3 allra barna á landinu taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi og rúmlega 11% fullorðinna stunduðu enga rösklega hreyfingu yfir vikuna árið 2019.
Hér hafa bara verið nefnd nokkur dæmi um það sem kom fram í lýðheilsuvísum ársins 2020 en í þeim er að finna enn meira af gagnlegum upplýsingum. Þegar vísarnir eru skoðaðir kemur í ljós hvaða áskorunum heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir, og í því felast einnig tækifæri sem mikilvægt er að nýta. Lýðheilsuvísarnir eru líka mikilvægur þáttur í eflingu heilsulæsis, sem tengist einu lykilviðfangsefna heilbrigðisstefnu, markmiðinu um virka notendur.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.