Search
Close this search box.

Lýðræði á veirutímum?

Gústav

Deildu 

Þegar hart er í ári reynast hörðustu kapítalistar gjarnan vera pilsfaldakapítalistar og skammast sín ekkert fyrir að leita á náðir ríkisins. Á þessum Covid-19 tímum rifjast upp frasar frá hrunárunum um fyrirtæki sem voru „of stór til að falla“ og hávær köll um að ríkið kæmi til bjargar. Þannig eru þess dæmi að fyrirtæki sem staðið hafa í milljarðaarðgreiðslum, seinustu ár, virðast nú allt í einu ekki hafa úr neinum aurum að moða og eigendur ætlast til þess að ríkið bjargi þeim fyrir horn.

Þegar ljóst var hve mikil áhrif veirunnar yrðu á efnahagslífið kynnti ríkisstjórnin ýmis úrræði til að koma til móts við atvinnulíf og vinnandi fólk. Eitt þessara úrræða er hlutabótaúrræðið, svokallaða, en þar geta atvinnurekendur og launafólk gert með sér samning um að skerða starfshlutfall launafólks tímabundið sem fær þá greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti. Þetta úrræði er með miklum ágætum og hefur vakið ánægju, m.a. hjá Drífu Snædal, forseta ASÍ. Ánægjan sprettur ekki síst af því að þessi aðgerð snýr að kjörum vinnandi fólks og lífsviðurværi þess en er ekki beint að atvinnurekendum sjálfum.

Þrátt fyrir ágæti úrræðisins hafa viðbrögð margra fyrirtækja sýnt hversu takmarkalaust valdaójafnvægi er milli launafólks og atvinnurekenda. Verkalýðsfélögunum hefur borist til eyrna að ekki aðeins sé fólki einfaldlega tilkynnt að starfshlutfall þess verði skert, þó skýrt komi fram að slíkar breytingar verði að eiga sér stað í samráði við starfsfólk, heldur eru þess einnig dæmi að fólk sé sett í hlutastarf og síðan ætlast til þess að það vinni áfram langt umfram hið nýja starfshlutfall. Hér sést hversu langt á eftir íslenskt atvinnuumhverfi er í lýðræðisþróun.

Hvernig blasir það við starfsmanni þegar yfirboðari tilkynnir honum að hann sé kominn í hálft starf? Hver svo sem rökstuðningurinn kann að vera þá liggur það alltaf í loftinu að yfirboðarinn hugsi fyrst og síðast um reksturinn. Of hátt og mikið er eignarhaldið metið að verðleikum og allt of lítillækkuð og hunsuð er verðmætasköpun launafólks. Á þessum tímum sést að það er vinnuframlag okkar allra sem skapar gæðin, án starfsfólksins verður lítið úr starfseminni. Því er með öllu ótækt að launfólk hafi engin áhrif á það hvernig rekstrinum er háttað. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera nafnlaust vinnuframlag sem er hægt að skipta út þegar við hentum ekki lengur.

Barátta í hálfa öld

Allt frá árinu 1965 þegar Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins, lagði fram tillögu að þingsályktun um efnið, hafa vinstri öfl á Íslandi reynt að koma því til leiðar að Alþingi styrki umgjörð atvinnulýðræðis hérlendis. Þessari baráttu hefur verið haldið áfram í rúma hálfa öld með takmörkuðum árangri. Vinstri græn hafa þrisvar lagt fram tillögur að þingsályktun um málið frá 2013, sem öllum hefur verið hafnað. Þá hefur verkalýðshreyfingin tekið við sér í þessum málaflokki eins og sjá má í nýlegri grein í Kjarnanum sem Þorvarður Bergmann Kjartansson, stjórnarmaður í VR, skrifaði. Í bæði þingsályktunartillögunum og í grein Þorvarðar hefur áhersla verið lögð á að starfsfólk eignist fulltrúa i stjórn stærri fyrirtækja, eins og þekkist víðs vegar á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, en einnig að í minni fyrirtækjum geti starfsmenn haft víðtæk ráðgefandi áhrif.

Í lýðræðislegum rekstri er sjálfsákvörðunarréttur fólks virtur og fólk fær að hafa rödd. Við komumst saman að niðurstöðum. Það má vel vera að það verði ekki allir sáttir en niðurstaðan er okkar fyrir því. Hún kemur ekki að ofan heldur sprettur upp úr viðleitni okkar til þess að taka ákvörðun saman. Með því að formgera réttinn til lýðræðislegrar þátttöku starfsfólks sköpum við starfsumhverfi þar sem virðing og samvinna er höfð að leiðarljósi.

Framtíð hagkerfisins

En hvernig komumst við þangað? Fyrst mætti vinna með þingsályktunartillögurnar og þróa atvinnulýðræði áfram í stíl við það sem vel hefur reynst, t.d. á Norðurlöndunum og í Þýskalandi. Skilgreina þátttöku starfsfólks í stjórnum stærri fyrirtækja og formgera lýðræðislega þátttöku þess í minni fyrirtækjum.

Hið opinbera gæti þá tekið stórt skref með því að beita sér fyrir því að opinberar stofnanir og fyrirtæki í  eigu þess séu rekin út frá hugmyndafræði lýðræðislegra rekinna fyrirtækja, en ekki kapítalískra, eins og nú tíðkast.

Þá þarf að endurskrifa löggjöfina um lýðræðislega rekin fyrirtæki til að taka mið af breyttum tímum og nýrri sýn á samfélagslega eign. Tryggja þarf m.a. möguleikann á að smærri fyrirtæki geti verið í lýðræðislegri eign og einnig að auðvelt sé að breyta hefðbundum einkahlutafélögum og hlutafélögum í lýðræðislega rekin fyrirtæki.

Það er löngu orðið deginum ljósara að neysluhyggja nútímasamfélaga og kapítalísk gróðahugsjón hafa gengið sér til húðar, hvort sem litið er til samfélags eða náttúru. Til þess að bregðast við þessu þurfum við að hugsa kerfin okkar upp á nýtt þar sem við forgangsröðum manneskjum fram yfir gróða. Lýðræðisvæðing hagkerfisins myndi færa okkur í átt að slíkri forgangsröðun. Ef einhvern tímann var tími til þess, þá er það núna!

Greinin birtist fyrst í 1. maí blaði VGR

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search