PO
EN

Magnað heilbrigðiskerfi

Deildu 

Heilbrigðiskerfið okkar er ein heild sem vinnur að því markmiði að veita samfellda þjónustu þar sem hagsmunir notenda eru hafðir að leiðarljósi. Sjaldan hefur mikilvægi þessarar heildar verið jafn augljóst eða jafn mikilvægt og nú. Allir þeir sem starfa í heilbrigðiskerfinu og veita þjónustuna stilla nú saman strengi til þess að láta allt ganga sem best í viðbrögðum okkar við COVID 19-faraldrinum.

Heilbrigðiskerfið sýnir um þessar mundir burði sína til þess að takast á við afleiðingar faraldursins. Það hefur sýnt okkur, og gerir enn, að það býr yfir ótrúlega mögnuðum mannauði, þekkingu, sveigjanleika og styrk.

Landspítali hefur staðið í stafni í þessu verkefni. Með breytingum á húsnæði var sett á laggirnar sérstök COVID 19-göngudeild sem verið hefur miðstöð þjónustu við alla þá sem eru smitaðir af veirunni hér á landi. Aðrar deildir spítalans hafa sinnt krefjandi verkefnum í breyttum aðstæðum af miklum dugnaði. Sjúkrahúsið á Akureyri hefur ráðist í viðamiklar breytingar á sinni starfsemi og sett á laggirnar tvær nýjar einingar, sérstaka COVID 19-legudeild og göngudeild og starfsmenn þar eiga hrós skilið.

Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa átt gott og náið samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Læknavaktina, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og aðra veitendur heilbrigðisþjónustu í því augnamiði að tryggja einstaklingum með COVID-19 sem besta þjónustu.

Heilsugæslan, bæði opinbera heilsugæslan og hin einkarekna, sinnir mikilvægu hlutverki í faraldrinum og hefur umbylt starfsemi sinni með aukinni fjarþjónustu, sinnir sýnatökum auk hefðbundinna verkefna.

Heilbrigðiskerfið okkar er að sýna hvað býr í því. Fólk í framlínu leggur sjálft sig í hættu og vinnur sína vinnu af trúmennsku í þessum fordæmalausu aðstæðum. Ég hef sjálf talað fyrir sterku opinberu heilbrigðiskerfi og er mjög ánægð með það þegar heilbrigðiskerfið sýnir þessa burði. Ég er viss um það að eftir þessa lotu munum við vera fær um það að stilla enn betur saman strengi um að efla það og styrkja.

Ég tel að hér eftir sem hingað til þurfum við að halda áfram að efla heilbrigðiskerfið okkar. Þetta álagspróf sem við erum í núna sýnir það og sannar að við eigum ekki að spara í heilbrigðisþjónustu. Sú þjónusta snýst ekki bara um líf og heilsu hvers og eins einstaklings, heldur um sjálfsmynd þjóða. Það snýst um það að við vitum að við erum sjálfum okkur næg, höfum innviði sem þola stór áföll og að við höldum utan um okkar veikasta fólk og stöndum saman þegar bjátar á. Ég mun áfram beita mér fyrir því að íslensk heilbrigðisþjónusta verði í forgrunni og áhersla lögð á að efla hana og styrkja. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search