PO
EN

Mál flóttabarna tekin fyrir

Deildu 

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir dóms­málaráðherra mun á þriðju­dag legga fram til­lögu í rík­is­stjórn um for­gangs­röðun mála viðkvæmra hópa í rík­is­kerfi út­lend­inga­mála. Þetta seg­ir Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra en aukið fé verður lagt til viðkom­andi stofn­ana til að tryggja þetta. 

Til stend­ur að vísa úr landi tveim­ur af­gönsk­um fjöl­skyld­um sem hér hafa dvalið, til Grikk­lands. Mál fjöl­skyldn­anna hef­ur vakið mikla at­hygli og fjöl­menn mót­mæli voru hald­in í miðborg Reykja­vík­ur í gær þar sem þess var kraf­ist að fólk­inu verði ekki vísað úr landi. Umræðan hef­ur að mestu snú­ist um þau Za­inab Safari, 14 ára nem­anda Haga­skóla, og Mahdi Sarw­ari, 10 ára, sem hef­ur glímt við ofsa­kvíða vegna ákvörðunar yf­ir­valda um að vísa hon­um og fjöl­skyldu hans úr landi. 

Sam­nem­end­ur Zainab hafa fylkt liði og mót­mælt ákvörðun stjórn­valda í máli henn­ar, en þau Mahdi og Zainab eiga það bæði sam­eig­in­legt að hafa notið skóla­göngu hér og myndað tengsl við önn­ur börn. 

„Hér er um sér­stak­lega viðkæm­an hóp að ræða“

Katrín kveðst í sam­tali við mbl.is ekki geta tjáð sig um þessi ein­stöku mál en seg­ir rík­an vilja til þess, bæði póli­tísk­an og al­menn­an, til þess að líta sér­stak­lega til barna og ung­menna við meðferð út­lend­inga­mála. Hún kveðst þó vita til þess að mál­in séu bæði til skoðunar hjá rík­inu og kveðst bjart­sýn um að far­sæl­ar lausn­ir fá­ist í þeim báðum. Frétt af mbl.isMót­mæla „al­gjöru rugli“

„Dóms­málaráðherra mun á þriðju­dag leggja fram til­lögu í rík­is­stjórn á um að um­sókn­um sem snúa að börn­um og ung­menn­um verði for­gangsraðað í kerf­inu og henn­ar stofn­un­um,“ seg­ir Katrín sem fundaði með Þór­dísi Kol­brúnu í morg­un. „Við rædd­um sömu­leiðis að það yrði lagt til aukið fé í þess­ar stofn­an­ir þannig að hægt verði að standa við þessa for­gangs­röðun. Mér finnst það eðli­legt, bæði í ljósi okk­ar skuld­bind­inga gagn­vart barna­sátt­mál­an­um og í ljósi þess að hér er um sér­stak­lega viðkvæm­an hóp að ræða,“ seg­ir Katrín.

Ráðherra fund­ar með Rauða kross­in­um

Sem fyrr sagði stend­ur til að vísa börn­un­um og fjöl­skyld­um þeirra til Grikk­lands. Í bréfi Sal­var­ar Nor­dal, umboðsmanns barna, sem óskað hef­ur fund­ar við dóms­málaráðherra seg­ir að end­ur­send­ing­um hæl­is­leit­enda til Grikk­lands hafi verið hætt árið 2010 þar sem aðstæður í gríska hælis­kerf­inu hafi verið tald­ar ófull­nægj­andi. Þá kem­ur þar einnig fram að end­ur­send­ing­um þeirra sem fengið hafa alþjóðlega vernd í lönd­un­um tveim­ur hafi ekki verið hætt þar sem þeir ein­stak­ling­ar hafi fengið út­gef­in dval­ar­leyfi og fari því ekki í gegn­um hælis­kerfið þar í landi. Frétt af mbl.isFor­dæma fyr­ir­hugaðar brott­vís­an­ir

Í umræðu um mál barn­anna hef­ur komið fram að þau muni ekki njóta fullr­ar mennt­un­ar í Grikklandi. Spurð hvort stjórn­völd hafi upp­lýs­ing­ar um aðstæður í Grikklandi og hvort skil­yrði barn­anna til lífs þar séu full­nægj­andi seg­ir Katrín að stjórn­völd styðjist við leiðbein­ing­ar flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna í þess­um efn­um,

„Rauði kross­inn hef­ur verið að gera at­huga­semd­ir um þetta og dóms­málaráðherra mun funda með þeim til að fara yfir þeirra at­huga­semd­ir í þessu. En okk­ar leiðbein­ing­ar koma frá flótta­manna­stofn­un­ar SÞ,“ seg­ir hún.

Full ástæða til að fara yfir fram­kvæmd­ina

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram að mannúðarsjón­ar­mið og alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar verði lagðar til grund­vall­ar í út­lend­inga­mál­um. Spurð hvort fram­kvæmd lag­anna, eins og hún birt­ist m.a. í mál­um þeirra Zanib og Mahdi, fari í bága við þetta mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir Katrín að full ástæða sé til þess að end­ur­skoða lög­in.Frétt af mbl.is„Ekki hægt að humma þetta af sér“

„Það er full ástæða til þess að fara yfir fram­kvæmd þess­ara laga sem voru á sín­um tíma unn­in í þver­póli­tískri sátt, sem er mjög mik­il­vægt. Ráðherra dóms­mála mun end­ur­skipa og end­ur­nýja umboð þing­manna­nefnd­ar um lög­in. Mark­mið lag­anna er að mannúð sé höfð að leiðarljósi. Við þurf­um auðvitað að tryggja að lög­gjaf­inn sé sátt­ur við fram­kvæmd lag­anna,“ seg­ir hún.

Sam­ræm­ist þessi fram­kvæmd lag­anna stefnu Vinstri grænna?

„Við auðvitað stóðum að þess­ari laga­setn­ingu á sín­um tíma og hún snýst auðvitað um þessi mannúðarsjón­ar­mið. Vegna þess­ar­ar umræðu núna vil ég segja að fólk þvert á hið póli­tíska lit­róf kall­ar eft­ir því að það verði ráðist í for­gangs­röðun í þágu barna. Ég held þetta sé ekki mál sem ein­göngu er bundið við til­tekna flokka. Þetta snýst um mun víðtæk­ari vilja í sam­fé­lag­inu,“ seg­ir hún.Frétt af mbl.isSal­vör Nor­dal vill hitta ráðherra

Í mark­miðsákvæði út­lend­ingalaga frá 2016 seg­ir að mark­mið þeirra sé að tryggja mannúðlega og skil­virka meðferð stjórn­valda í mál­efn­um út­lend­inga hér á landi, en hafa þessi sjón­ar­mið komið skýrt fram í fram­kvæmd lag­anna hingað til að mati Katrín­ar?

„Þetta er lær­dóms­ferli og við erum stödd í þeim veru­leika að flótta­manna­straum­ur hef­ur auk­ist gíf­ur­lega. Ég held það sé eðli­legt að við för­um yfir þessa fram­kvæmd og met­um það hvað hef­ur tek­ist vel til, því margt hef­ur tek­ist vel. T.a.m. hvernig við búum að þeim sem fá hér hæli og mál­efni flótta­manna. Fjöldi þeirra sem fá hér hæli er ekki endi­lega lág­ur miðað við höfðatölu, en það er margt sem við get­um gert bet­ur. Til dæm­is tíma­lengd mála og viðkvæm­ir hóp­ar,“ seg­ir hún.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search