Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra mun á þriðjudag legga fram tillögu í ríkisstjórn um forgangsröðun mála viðkvæmra hópa í ríkiskerfi útlendingamála. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra en aukið fé verður lagt til viðkomandi stofnana til að tryggja þetta.
Til stendur að vísa úr landi tveimur afgönskum fjölskyldum sem hér hafa dvalið, til Grikklands. Mál fjölskyldnanna hefur vakið mikla athygli og fjölmenn mótmæli voru haldin í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem þess var krafist að fólkinu verði ekki vísað úr landi. Umræðan hefur að mestu snúist um þau Zainab Safari, 14 ára nemanda Hagaskóla, og Mahdi Sarwari, 10 ára, sem hefur glímt við ofsakvíða vegna ákvörðunar yfirvalda um að vísa honum og fjölskyldu hans úr landi.
Samnemendur Zainab hafa fylkt liði og mótmælt ákvörðun stjórnvalda í máli hennar, en þau Mahdi og Zainab eiga það bæði sameiginlegt að hafa notið skólagöngu hér og myndað tengsl við önnur börn.
„Hér er um sérstaklega viðkæman hóp að ræða“
Katrín kveðst í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um þessi einstöku mál en segir ríkan vilja til þess, bæði pólitískan og almennan, til þess að líta sérstaklega til barna og ungmenna við meðferð útlendingamála. Hún kveðst þó vita til þess að málin séu bæði til skoðunar hjá ríkinu og kveðst bjartsýn um að farsælar lausnir fáist í þeim báðum. Frétt af mbl.isMótmæla „algjöru rugli“
„Dómsmálaráðherra mun á þriðjudag leggja fram tillögu í ríkisstjórn á um að umsóknum sem snúa að börnum og ungmennum verði forgangsraðað í kerfinu og hennar stofnunum,“ segir Katrín sem fundaði með Þórdísi Kolbrúnu í morgun. „Við ræddum sömuleiðis að það yrði lagt til aukið fé í þessar stofnanir þannig að hægt verði að standa við þessa forgangsröðun. Mér finnst það eðlilegt, bæði í ljósi okkar skuldbindinga gagnvart barnasáttmálanum og í ljósi þess að hér er um sérstaklega viðkvæman hóp að ræða,“ segir Katrín.
Ráðherra fundar með Rauða krossinum
Sem fyrr sagði stendur til að vísa börnunum og fjölskyldum þeirra til Grikklands. Í bréfi Salvarar Nordal, umboðsmanns barna, sem óskað hefur fundar við dómsmálaráðherra segir að endursendingum hælisleitenda til Grikklands hafi verið hætt árið 2010 þar sem aðstæður í gríska hæliskerfinu hafi verið taldar ófullnægjandi. Þá kemur þar einnig fram að endursendingum þeirra sem fengið hafa alþjóðlega vernd í löndunum tveimur hafi ekki verið hætt þar sem þeir einstaklingar hafi fengið útgefin dvalarleyfi og fari því ekki í gegnum hæliskerfið þar í landi. Frétt af mbl.isFordæma fyrirhugaðar brottvísanir
Í umræðu um mál barnanna hefur komið fram að þau muni ekki njóta fullrar menntunar í Grikklandi. Spurð hvort stjórnvöld hafi upplýsingar um aðstæður í Grikklandi og hvort skilyrði barnanna til lífs þar séu fullnægjandi segir Katrín að stjórnvöld styðjist við leiðbeiningar flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum,
„Rauði krossinn hefur verið að gera athugasemdir um þetta og dómsmálaráðherra mun funda með þeim til að fara yfir þeirra athugasemdir í þessu. En okkar leiðbeiningar koma frá flóttamannastofnunar SÞ,“ segir hún.
Full ástæða til að fara yfir framkvæmdina
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verði lagðar til grundvallar í útlendingamálum. Spurð hvort framkvæmd laganna, eins og hún birtist m.a. í málum þeirra Zanib og Mahdi, fari í bága við þetta markmið ríkisstjórnarinnar segir Katrín að full ástæða sé til þess að endurskoða lögin.Frétt af mbl.is„Ekki hægt að humma þetta af sér“
„Það er full ástæða til þess að fara yfir framkvæmd þessara laga sem voru á sínum tíma unnin í þverpólitískri sátt, sem er mjög mikilvægt. Ráðherra dómsmála mun endurskipa og endurnýja umboð þingmannanefndar um lögin. Markmið laganna er að mannúð sé höfð að leiðarljósi. Við þurfum auðvitað að tryggja að löggjafinn sé sáttur við framkvæmd laganna,“ segir hún.
Samræmist þessi framkvæmd laganna stefnu Vinstri grænna?
„Við auðvitað stóðum að þessari lagasetningu á sínum tíma og hún snýst auðvitað um þessi mannúðarsjónarmið. Vegna þessarar umræðu núna vil ég segja að fólk þvert á hið pólitíska litróf kallar eftir því að það verði ráðist í forgangsröðun í þágu barna. Ég held þetta sé ekki mál sem eingöngu er bundið við tiltekna flokka. Þetta snýst um mun víðtækari vilja í samfélaginu,“ segir hún.Frétt af mbl.isSalvör Nordal vill hitta ráðherra
Í markmiðsákvæði útlendingalaga frá 2016 segir að markmið þeirra sé að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi, en hafa þessi sjónarmið komið skýrt fram í framkvæmd laganna hingað til að mati Katrínar?
„Þetta er lærdómsferli og við erum stödd í þeim veruleika að flóttamannastraumur hefur aukist gífurlega. Ég held það sé eðlilegt að við förum yfir þessa framkvæmd og metum það hvað hefur tekist vel til, því margt hefur tekist vel. T.a.m. hvernig við búum að þeim sem fá hér hæli og málefni flóttamanna. Fjöldi þeirra sem fá hér hæli er ekki endilega lágur miðað við höfðatölu, en það er margt sem við getum gert betur. Til dæmis tímalengd mála og viðkvæmir hópar,“ segir hún.