Lög um velferð dýra voru tímamótalöggjöf. Í fyrsta sinn á Íslandi var málleysingjum veitt tiltekin vernd á grunni þess að dýr séu skyni gæddar verur, að þau hafi gildi í sjálfu sér. Markmið laganna er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.
Í ágúst í fyrra setti ég reglugerð um eftirlit með velferð dýra við hvalveiðar. Markmiðið var að stuðla að bættri velferð dýra. Eftirlitið hófst 24. ágúst í fyrra og stóð út vertíðina, eða til 28. september á síðasta ári. Matvælastofnun vann í kjölfarið eftirlitsskýrslu sem var send leyfishafa og honum veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Niðurstaða sérfræðinga Matvælastofnunar var að veiðarnar hefðu ekki samrýmst markmiðum laga um velferð dýra.
Niðurstaða eftirlits leiddi í ljós:
Fjórir af hverjum tíu hvölum sem veiddir voru dóu ekki samstundis, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Fjórðung hvalanna þurfti að skjóta oftar en einu sinni.
Miðgildi dauðastríðsins fyrir þá hvali sem ekki drápust strax var 11,5 mínútur.
Tvær klukkustundir og sex skutla þurfti til að fella eina langreyðarkú.
Skýrsla Matvælastofnunar birtist í byrjun maí. Í kjölfarið fól stofnunin fagráði um velferð dýra að fara yfir fyrirliggjandi gögn og meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfirhöfuð uppfyllt markmið og meginreglur laga um velferð dýra þannig að mannúðleg aflífun þeirra sé tryggð.
Afdráttarlaus niðurstaða
Niðurstaða fagráðs um velferð dýra sem skilað var í vikunni er afdráttarlaus; við veiðar á stórhvelum er ekki hægt að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja velferð dýra við aflífun. Nánar tiltekið segir fagráðið að aflífun stórhvela sé ekki möguleg á skjótan og sársaukalausan hátt. Auk þess veldur eftirförin við veiðarnar hvölunum streitu, og þegar langreyðarkýr eru skotnar eru hverfandi líkur á því að hvalkálfar sem þeim fylgdu lifi af.
Niðurstaða fagráðsins er með öðrum orðum að hvalveiðar brjóta gegn lögum um velferð dýra. Löggjafinn hefur falið mér, sem ráðherra sem fer með dýravelferðarmál, ábyrgð á því að tryggja velferð dýra með þeim úrræðum sem ég hef. Þessi ábyrgð er sérstaklega rík í þessum málaflokki þar sem dýr eru málleysingjar sem eiga sér ekki annan málsvara að lögum en stjórnvöld. Velferð þeirra verður að vera í forgrunni og lagabókstafurinn segir það. Í þessu ljósi varð það úr að fresta upphafi veiðitímabilsins og nota næstu vikur til að kanna mögulegar úrbætur og taka samtal við leyfishafa og sérfræðinga.
Það er úrræði sem er byggt á faglegu mati og sterkum lagagrunni, með velferð hvala að leiðarljósi.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.