Search
Close this search box.

Mannréttindadómstóll Evrópudómstólsins tilnefndur til Friðarverðlauna Nóbels

Rósa Björk

Deildu 

Orðin „Aldrei aftur“ voru mikið notuð við lok seinni heimsstyrjaldarinnar og eru enn. Með „Aldrei aftur“ er ekki eingöngu átt við að styrjöld líkt og seinni heimsstyrjöldin eigi aldrei að eiga sér stað aftur, heldur að við eigum aldrei aftur að upplifa eða láta viðgangast viðlíka illsku og önnur eins brot á mannréttindum og raungerðust í hræðilegum glæpum seinni heimsstyrjaldarinnar. Mörg krefjandi verkefni biðu íbúa Evrópu við uppbyggingu álfunnar eftir hörmungar og viðbjóð seinni heimsstyrjaldarinnar.

Samvinna, skilgreining á mannréttindum og virðing fyrir lýðræði, lögum og reglum urðu einkennis­orð uppbyggingarinnar og nauðsynlegur leiðarvísir áfram fyrir stríðshrjáða álfu sem þurfti að koma á varanlegum friði og sátt um samfélagsleg gildi og leikreglur, til þess að koma í veg fyrir að stríðshörmungarnar endurtækju sig.

Ein af lykilákvörðunum við uppbygginguna var stofnun Evrópuráðsins 5. maí árið 1949 og samþykkt Mannréttindasáttmála Evrópu ári síðar upp á dag. Árið eftir sýndu íslenskir stjórnmálamenn þess tíma mikla framsýni fyrir nýja, sjálfstæða lýðræðisríkið Ísland sem gerðist aðildarríki 1950 og fagnar því 70 ára aðild að Evrópuráðinu í ár. Nú eru aðildarríkin 47 og í þeim ríkjum búa um 804 milljónir manna. Mannréttindasáttmálinn er lykilsáttmáli aðildarríkja Evrópuráðsins. Hann tryggir að mannréttindi og réttindi borgaranna séu fest í lög aðildarríkjanna. Og til að tryggja að aðildarríkin standi við skuldbindingarnar sem samningurinn felur í sér, var Mannréttindadómstóll Evrópu stofnaður árið 1959.

Einstök réttindi

Á þessum 60 árum hefur dómurinn kveðið upp meira en 10 þúsund dóma og frá árinu 1998 hafa einstaklingar getað leitað til dómstólsins með mál sín. Íbúar aðildarríkja Evrópuráðsins njóta því aðildar síns ríkis á þann mikilvæga hátt að ef þau telja ríkisvaldið brjóta á réttindum sínum, getur viðkomandi leitað með mál sitt til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Það er magnað úrræði og ótrúlegt réttaröryggi fyrir íbúa aðildarríkjanna. En þúsundir dóma Mannréttindadómstólsins lúta líka að því að úrskurða um samfélagslegar krísur eða jafnvel átök. Enda er Mannréttindadómstólnum oft lýst sem „krúnudjásni“ Evrópuráðsins og vitnað í dómsorð hans í dómstólum víða um heim.

Og nú hefur forseti Evrópuráðsþingsins tilnefnt dómstólinn til Friðarverðlauna Nóbels árið 2020. Ekki að ósekju þar sem dómstóllinn hefur leikið algjört lykilhlutverk í því að tryggja friðsamlega uppbyggingu Evrópu og skýrt leikreglurnar sem voru og eru enn svo nauðsynlegar til að koma á og viðhalda varanlegum friði og sátt um samfélagsleg gildi og leikreglur. En líka til að koma í veg fyrir að hatursglæpir og fordómar leiði til þess að stríðshörmungarnar endurtaki sig.

Berum meiri virðingu fyrir alþjóðastofnunum

Það eru því mikil vonbrigði að íslenska ríkið skuli á þessum tímamótum dómstólsins grípa til ítrustu varna og setja mikla fjármuni í að verjast í afar umdeildu máli sem snertir og veikir dómskerfi okkar. Það er skiljanlegt að ríki verji sig og eðlilegt, en munum að dómar Mannréttindadómstólsins eru þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir Ísland sem íslenskir dómstólar hafa ávallt og undantekningarlaust beygt sig undir. Líka þegar íslenska ríkið hefur tapað máli.

Að áfrýja dómsmáli um ólögmæta skipan dómara við Landsrétt til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í stað þess að lúta fyrstu niðurstöðum dómsins, var einfaldlega dapurleg ákvörðun sem jók á réttaróvissu.

Enn dapurlegra er þó þegar stjórnmálamenn, sem virðast nánast eingöngu hugsa um sitt eigið orðspor og stöður, halda opinberlega á lofti málflutningi sem grefur undan einni af meginstofnunum mannréttinda, laga og reglna sem Ísland á aðild að.

Þess háttar málflutningur stjórnmálamanna sem og að taka til ítrustu varna, er bæði niðurlægjandi fyrir okkur sem aðildarríki Evrópuráðsins en líka fyrir okkur sem viljum láta taka okkur alvarlega sem þróað lýðræðisríki og alvöru réttarríki án beinna afskipta stjórnmálamanna að dómskerfi okkar. Enda sýndi það sig að eini opinberi stuðningurinn við málatilbúnaðinn kom frá Póllandi sem fékk afskaplega hörð tilmæli á Evrópuráðsþinginu fyrir nokkrum dögum vegna afar umdeildra breytinga á dóms- og réttarkerfi sínu sem taldar eru grafa undan lýðræði í Póllandi og réttindum borgaranna þar. Þingið ákvað að fara í eftirlitsferli á Póllandi sem er með þeirri ákvörðun eina ESB-ríkið sem þarf að lúta þannig eftirliti. Svona stuðning er betra að vera laus við.

Nær væri að íslenska ríkið myndi sýna Mannréttindadómstól Evrópu þá virðingu sem hann á skilið og meira til á tímamótum sem þessum.

Hvernig sem dómsniðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu verður í vikunni, þá verðum við að hlúa að og auka almenna virðingu fyrir alþjóðastofnunum og sáttmálum sem snúast um virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og lögum og reglum. Að tala mannréttindastofnanir niður er grafalvarlegur hlutur og snýst um miklu meira en stöður, embætti eða að slá pólitískar keilur. Það snýst um ábyrgð og virðingu. Eitthvað sem sumt íslenskt stjórnmálafólk mætti tileinka sér í meiri mæli.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaforseti Evrópuráðsins

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search