EN
PO
Search
Close this search box.

Mannúð og friður

Deildu 

Ísland er um margt sérstæður staður, við eigum okkur enga eiginlega nágranna, engin landamæri að stærri þjóð sem ógnar öryggi okkar á þann hátt sem fólk á meginlandinu þarf að búa við. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt, þegar þjóðríki þessa heims taka upp vopn og ráðast inn í annað land, að við finnum okkur máttvana. Við eigum ekki sprengjur eða vopn, við erum ekki með her. Það er í mínum huga fagnaðarerindi að við viljum leggja okkar á vogaskálarnar og það er mikilvægt að við finnum kröftum okkar viðnám og beinum viljanum til að hjálpa í rétta átt. Fyrir herlausa þjóð þýðir það að veita mannúðaraðstoð, taka á móti flóttafólki og aðstoða á hvern þann hátt sem við best getum. Á þann hátt nýtum við styrkleika okkar eins og við best kunnum og höfum gert þegar hörmungar hafa dunið á víðsvegar um heiminn.

Stríðið sem nú geisar í Úkraínu af hálfu Rússneskra stjórnvalda hefur verið vatn á myllu hernaðarsinna hér á landi, það hefur engum dulist. Umræðan er á alla vegu, um NATÓ, um netöryggisógnir og um þjóðaröryggisstefnu Íslendinga. Allt borið fram í einum graut og engu nær en að víglínan standi hér rétt við þröskuldinn hjá okkur. Það er þessi tilhneiging að finna lægsta samnefnara, finna punktinn sem að má ýta á sem að snertir okkur öll. Þannig má fjalla um netöryggismál vegna stríðsins í Úkraínu af því að það er snertiflötur Íslendinga við stríðið, það er möguleg þjóðarógn, eða hvað?

Það var á síðasta kjörtímabili að öryggishugtakið í þjóðaröryggisstefnu Íslendinga var útvíkkað, kaldhæðnislega á vakt VG. Það er þó ekki gert til að koma hér upp varnarliði eða skjóta rakettum, það var til þess að ná utan um öryggisógnir sem þessar. Það er einmitt til stefna um netöryggismál, hvernig við komum vörnum við ef innviðum landsins er raunverulega ógnað. Ógnir sem við þurfum að vera meðvituð um og viðbúin öllum stundum snúa að veðri og vindum, að jarðskjálftum og hinum ýmsu sviðsmyndum loftslagsvár.

Hræðsluáróður og útúrsnúningar á stöðu stríðs í Úkraínu til þess að rökstyðja aðildarviðræður við Evrópusambandið eða gefa eftir okkar herlausa landsvæði til uppbygginga fyrir NATO á ekki að viðgangast. Við ættum heldur að klára að friðlýsa íslenska landhelgi fyrir kjarnavopnum – og alltaf og alls staðar tala fyrir mannúð og friði.

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search