Ég hef ákveðið í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að ráðast í tilraunaverkefni um sérstaka móttöku fyrir konur innan heilsugæslunnar. Vísbendingar eru um að þörfum kvenna fyrir heilbrigðisþjónustu sé ekki alltaf mætt sem skyldi. Bent hefur verið á niðurstöður rannsókna sem sýna þetta, ábendingar þess efnis hafa borist ráðuneytinu og orðið hefur almenn vitundarvakning sem dregið hefur fram mikilvægi þess að bæta úr á þessu sviði.
Í fyrra fól ég Finnborgu S. Steinþórsdóttur, doktor í kynjafræði, að vinna úttekt þar sem heilsufar kynjanna var kortlagt úr frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og lagt mat á það hvort heilbrigðisþjónustan mæti ólíkum þörfum kynjanna. Að mínu mati var bæði tímabært og mikilvægt að leggjast í slíka vinnu. Niðurstaða Finnborgar er að konur virðast búa við lakara heilsufar og verri lífsgæði en karlar og að ástæður þess megi rekja að hluta til félagslegrar og efnahagslegrar stöðu þeirra í samfélaginu, þ.e. kynjaðra áhrifaþátta sem hafa áhrif á heilsu og líðan. Í skýrslunni eru tillögur að aðgerðum og heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að framkvæmd þeirra. Þar er meðal annars lagt til að efla þurfi þekkingu og færni heilbrigðisstarfsfólks til að greina áhrif samtvinnaðra þátta á heilsu og velferð, og hvernig kynjaðar staðalmyndir geta haft áhrif á heilsu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Ákvörðun um að þróa verkefni um kvennamótttöku í heilsugæslunni fellur vel að þessari tillögu úr skýrslu Finnborgar.
Heilsugæslan hefur fengið 60 milljóna króna viðbótarframlag vegna verkefnisins um kvennamótttöku, þar af fær Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu 15 milljónir króna. Hlutverk þróunarmiðstöðvarinnar verður að tryggja þekkingaröflun á þessu sviði og koma þeim á framfæri á landsvísu.
Sem dæmi um málefni sem mikilvægt er að heilsugæslan sinni og varða konur sérstaklega eru breytingaskeið kvenna, upplýsingar um getnaðarvarnir, ráðgjöf um ofbeldi og afleiðingar þess og ýmsir sjúkdómar sem herja sérstaklega á konur, svo eitthvað sé nefnt. Vegna þessa hefur verið bent á að sérstakar móttökur fyrir konur í heilsugæslu gætu verið góð leið til að uppfylla betur þarfir þeirra fyrir þjónustu. Í því tilraunaverkefni sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í er miðað við opnun einnar kvennamóttöku innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem mönnuð verði stöðugildum heilbrigðisstarfsfólks sem hefur þekkingu á viðfangsefninu, s.s. læknum, hjúkrunarfræðingum eða ljósmæðrum. Undirbúningur að opnun kvennamóttöku hefst nú þegar.
Með því að taka markviss skref í þá átt að stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu við öll kyn og stuðla að úrbótum á þessu sviði bætum við heilsu og líðan, og aukum þar með jafnrétti kynjanna.
Grein mín „Móttaka fyrir konur í heilsugæslunni“ birtist í Morgunblaðinu í dag, 30. júni 2021.