Í fréttum vikunnar kom fram að dauðsföllum vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja fækkaði um helming á fyrstu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra, úr tuttugu í níu. Við sjáum að þróun undanfarinna ára hefur hér verið snúið við en misnotkun lyfja sem valdið geta ávana og fíkn hefur farið hratt vaxandi undanfarin ár og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Til marks um það er fjölgun dauðsfalla fólks undir fertugu vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja úr að meðaltali fimmtán á ári á tímabilinu 2001-2015 í rúmlega þrjátíu dauðsföll árið 2018.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri SÁÁ, sem var innt var eftir viðbrögðum við þessari þróun sagði aðgerðir frá heilbrigðisráðuneytinu varðandi lyfjaávísanir hafa skipt miklu máli í þessu samhengi en jafnframt aukin umræða og vitundarvakning um skaðsemi lyfja sem valdið geta ávana og fíkn.
Vísaði Valgerður þarna til aðgerða sem farið var í á vegum heilbrigðisráðuneytisins til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja meðal annars með því að takmarka magn ávanabindandi lyfja í umferð hér á landi, styðja við góðar ávísanavenjur lækna og efla eftirlit, meðal annars með reglugerð um lyfjaávísanir, nr. 1266/2017, sem tók gildi 1. júlí sl. Meðal þess sem sú reglugerð felur í sér er að læknum er veitt meira aðhald en áður í lyfjaávísunum t.d. með því að heimila ekki ávísun á ýmis lyf, sem valdið geta ávana og fíkn, lengur en til 30 daga notkunar í senn. Þá þarf að liggja fyrir lyfjaskírteini sjúklings til að fá afgreidd lyf úr ákveðnum lyfjaflokkum og auknar kröfur eru um að einstaklingar sýni skilríki í apótekum til að fá slík lyf afgreidd. Árangur þessara aðgerða hefur verið góður en samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis dró verulega úr ávísunum lækna á lyf sem valdið geta ávana og fíkn á árinu 2018.
Þrátt fyrir að dregið hafi úr ávísunum lyfja sem valdið geta ávana og fíkn og dauðsföllum vegna ofneyslu þeirra hafi fækkað er notkun slíkra lyfja meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum og ljóst að leita þarf allra leiða til að stemma enn frekar stigu við misnotkun þeirra. Jafnframt er mikilvægt að huga að öryggi þeirra einstaklinga sem þegar eru í neyslu með skaðaminnkun að leiðarljósi og bind ég vonir við að frumvarp þess efnis um örugg neyslurými verði samþykkt af Alþingi innan skamms.
Allar þessar aðgerðir haldast í hendur og verkefni af þessu tagi krefst heildarsýnar og markvissra ákvarðana.
Höfundur er heilbrigðisráðherra