Sveitarstjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs blæs til ráðstefnu um menntamál laugardaginn 13. apríl. Málefnið enda ein af grunnstoðum samfélagsins og tíðrætt á vettvangi hreyfingarinnar. Ráðstefnan Máttur menntunar verður haldin á Fosshótel Reykjavík og er hún öllum opin. Dagskrá hefst klukkan 10:00 en einnig verður streymt frá viðburðinum á síðunni vg.is.
Menntakerfið þarf að ganga í takt við hraðar breytingar nútímasamfélags enda þær áskoranir sem menntakerfið stendur frammi fyrir í dag allt aðrar en voru fyrir örfáum árum síðan. Hvernig er brugðist við þessum áskorunum? Er menntakerfið að sjá tækifærin sem nútíminn býður upp á á tímum tækni og gervigreindar? Ragnar Þór Pétursson kemur inn á þetta í erindi sínu Menntun og mannsvit á krossgötum: Um áhrif gervigreindar á skóla og samfélag.
Þó nokkur sátt virðist ríkja um meginþætti menntakerfisins þarf að stíga enn stærri skref í átt að sjálfbærni hvers skóla, jöfnuði nemenda, aukinni vellíðan, fjölbreyttari kennsluháttum, betri námsgögnum og námsaðlögun. Við þurfum öll sem samfélag að lyfta menntun og þeim stofnunum sem henni sinna upp á hærri stall, meta störfin sem þar eru unnin að verðleikum og gera umhverfi þeirra og aðstöðu enn meira aðlaðandi.
Á ráðstefnunni verður samtalið tekið um þær áskoranir sem fólkið á gólfinu stendur frammi fyrir sem og tækifærin sem eru til staðar á þessum vettvangi. Boðið verður upp á örerindi um leikskólastigið og mikilvægi þess, tækifærin í grunnskólanum, styttingu framhaldsskólans og stöðu nemenda af erlendum uppruna í íslensku skólakerfi. Pallborð verða í kjölfar hvers málaflokks þar sem sitja starfandi kennarar, stjórnendur, nemendur og ýmist annað fagfólk.
Menntamálin er mjög stór málaflokkur sem er bæði flókinn og viðkvæmur. Menntamál koma okkur öllum við, enda er þar unnið með fjöregg þjóðarinnar, allt frá börnum í leikskóla til nemenda fullorðinsfræðslunnar. Í lærdómssamfélaginu stöndum við frammi fyrir ákveðnum úrlausnarefnum sem eru alls ekki óyfirstíganleg ef við gerum þetta saman, nemendur, starfsfólk, forráðamenn og samfélagið allt. Lykilorðið er samvinna.
Við höfum öll eitthvað til menntamála að leggja og þau á að ræða alls staðar. Ísland á ógrynni frábærra kennara og annars starfsfólk skólakerfisins. Stærð íslenska skólakerfisins býður upp á hraðar breytingar því boðleiðinar eru stuttar og vilji starfsfólks til að gera alltaf betur er mikill. Nýlegar kannanir sýna okkur að breytinga er þörf og nú er sannarlega tími til endurmats og endurskipulagningar með þarfir nemenda að leiðarljósi í breyttu samfélagi.
Tökum samtalið um menntamál á laugardaginn því þau koma okkur öllum við.
Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari og formaður Sveitarstjórnarráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Hólmfríður Árnadóttir, menntunarfræðingur, oddviti VG í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.