Á hátíðum eru hefðir það sem tengir nostalgískar minningar um gamla tíð við nútíðina. Þannig tengjast ýmsar hefðir páskunum; upplestur passíusálma, súkkulaðiegg og málshættir, páskaliljur og síðast en ekki síst, páskalambið, fyrir þau sem borða kjöt. Þessar hefðir tengja þau okkar sem búa í þéttbýli beint við bændur. Við eigum þó öll í stöðugum samskiptum við bændur, allt frá því að við hellum mjólkinni út á morgunkornið eða fáum okkur hafragraut, þar til við burstum tennurnar á kvöldin. Já, tannkrem er nefnilega landbúnaðarafurð en sorbitol í tannkremi er unnið úr maís. Þéttbýli og dreifbýli, borgin og sveitin, geta hvorugt án hins verið.
Um allan hinn vestræna heim er nú áberandi umræða um það hvernig hægt sé að tryggja nýliðun meðal bænda en víða fækkar í bændastétt og bændur eldast þrátt fyrir að aldrei hafi meira magn af matvælum verið framleitt í heiminum. Margar þjóðir hafa því tekið til þess ráðs að styðja við bændur með því að auðkenna innlend matvæli og auðvelda neytendum þar með að taka upplýstar ákvarðanir um kaup á vörum. Neytendur vilja fá skýrar upplýsingar um það hvar vörur eru framleiddar og bændur hafa líka haft áhyggjur af því að merkingar vara séu ekki nógu skýrar. Dæmi eru um að upprunaland sé tilgreint í örsmáu letri á umbúðum innfluttra vara en að pakkningar bendi annars til þess að um innlenda framleiðslu sé að ræða.
Sem dæmi um viðleitni til þess að koma í veg fyrir óskýrar merkingar eru upprunavottanir Evrópusambandsins en íslenskt lambakjöt hlaut þá vottun á dögunum, fyrst innlendra búvara. Þannig skipar lambakjötið okkar sér nú sess með frönskum ostum, ítölskum vínum og öðrum vörum bænda í hæsta gæðaflokki. Þessi viðurkenning skiptir miklu fyrir íslenskan landbúnað. Þá eru víða til valfrjálsar upprunamerkingar, til dæmis „Íslenskt staðfest“, sem auðveldar neytendum að velja íslenskt, og „Från Sverige“. Vara sem hefur merkinguna „Íslenskt staðfest“ hefur verið vottuð af þriðja aðila, uppruni innihaldsefnanna er ljós og framleiðslan á sér stað á Íslandi og því er tryggt að kjör þeirra sem starfa við framleiðsluna heyra undir íslenska vinnumarkaðslöggjöf. Allt of víða eru kjör landbúnaðarverkafólks og fleiri aðila í matvælakeðjunni léleg miðað við það sem gerist hér á landi.
Ef framleiðendur, verslanir og vinnslur taka sig saman og ákveða að auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir um kaup á vörum er ég viss um að neytendur og bændur styrki samband sitt. Styrkara samband neytenda og framleiðenda matarins er mikilvægt því það leiðir af sér meiri stuðning við innlenda matvælaframleiðslu, eykur fæðuöryggi og stuðlar að því að við veljum umhverfisvænni matvæli en ella. Það eru markmið sem við viljum stefna að. Gleðilega páska!
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.