Search
Close this search box.

Matvælaráðherra skipar starfshópa í sjávarútvegi

Deildu 

Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Fyrirhugaðar lokaafurðir þessa starfs eru m.a. ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað fjóra starfshópa til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Starfshóparnir eru Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.

Í ljósi reynslu af vinnu við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum og áratugum varð niðurstaða matvælaráðherra sú að beita þyrfti nýrri nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. Í stað einnar stórrar pólitískrar nefndar er nú komið á laggirnar opnu, þverfaglegu og gagnsæu verkefni fjölmargra aðila sem unnið verður með skipulegum hætti á kjörtímabilinu.

Starfshóparnir eru skipaðir samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 28. nóvember 2021. Þar kemur eftirfarandi fram í kafla um sjávarútvegsmál:

Skipuð verður nefnd til að til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunar kerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.

Úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar

Þá er í stjórnarsáttmálanum einnig kveðið á um að flýta skuli eins og kostur er orkuskiptum í sjávarútvegi og stutt verði við öflugt styrkjakerfi, samstarf við háskólasamfélagið og stuðningsumhverfi rannsókna og þróunar til að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Verkefnisstjórn matvælaráðuneytisins og formanna starfshópanna fjögurra mun funda reglulega um gang verkefnisins og með Samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu. Samráðsnefndin hefur yfirsýn yfir starf starfshópa og aðra þætti verkefnisins og er gert ráð fyrir að hún starfi til loka ársins 2023. 

Hægt er að sjá meðlimi starfshópanna, verkefnisstjórn og samráðsnefnd ráðherra á heimasíðu stjórnarráðsins.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search