Fyrir nokkru síðan staðfesti ég þriðju úthlutun úr Matvælasjóði, að þessu sinni hátt í sjötta hundrað milljónir til hinna ýmsu verkefna. Samtals hafa verið veittir úr sjóðnum 1,6 milljarðar síðan honum var komið á. Hlutverk hans er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Til mikils er að vinna. Síðustu ár hefur nýting sjávarfangs batnað mikið og með nýrri tækni hefur náðst að vinna verðmæta vöru úr rækjuskel og roði.
Aukið virði afurða skiptir máli
Þessi þróun varð ekki af sjálfu sér heldur hefur hún kostað mikla fjárfestingu í gegnum árin en er nú að skila sér í því að fyrir afurðir, sem áður fóru helst á útsöluverði í útflutning í fóðurgerð eða sambærilegt, fæst nú hærra verð. Sama þróun verður að eiga sér stað með aukaafurðir í landbúnaði. Þó að magn aukaafurða úr sláturhúsum verði aldrei af sömu stærðargráðu og aukaafurðir úr sjávarútvegi þá kann að vera að mikilvægi þeirra fyrir landbúnaðargeirann sé engu síðra.
Nú þegar eru spennandi verkefni í gangi sem hafa það að markmiði að auka virði úr aukaafurðum búfjár, innmat og fleiru. Fyrirtæki sem fengu styrk úr fyrstu úthlutun sjóðsins eru byrjuð að hasla sér völl erlendis. Ein af forsendum þess að það takist að bæta afkomu sauðfjárbænda er að auka virði þeirra afurða sem þeir framleiða. Þar eru aukaafurðir hluti af heildarmyndinni þótt afkoma sauðfjárbænda muni ekki velta á innmat frekar en afkoma sjávarútvegs ræðst af roði. En eins og dæmin sanna úr sjávarútvegi þá getur aukið virði hliðarafurða skipt máli, þar sem þau hráefni eru þegar til staðar.
Þekking sigrar sjúkdóma
Fullnýting og markaðssetning nýrra afurða er ekki hið eina sem skiptir máli, heldur einnig þær miklu framfarir sem geta komið með þekkingu. Gullfundur varð á þessu ári þegar gen, sem veitir vernd gegn riðu, uppgötvaðist í íslensku sauðfé. En í hátt í 150 ár hefur riðuveiki valdið miklu tjóni í íslenskri sauðfjárrækt og reynst nánast ómögulegt að uppræta þrátt fyrir mikil, kostnaðarsöm og sársaukafull viðbrögð á borð við niðurskurð. En núna eru fyrirheit um að loksins sé fær leið til að vinna lokasigur á riðuveiki á Íslandi. Verkefni sem snýr að því að gera greiningu á þessu geni hagkvæmari fékk stuðning matvælasjóðs í ár.
Gullfundur sem þessi er til marks um hversu mikil verðmæti þekking getur fært íslenskum landbúnaði og hversu mikilvægt verkefni það er að vernda og kortleggja erfðaauðlindir íslensks búfjár. Fjölmörg önnur mikilvæg verkefni hafa hlotið stuðning sjóðsins og eru til marks um mikilvægi hans fyrir framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra