PO
EN

Matvælasjóður eykur virði og dýraheilbrigði

Deildu 

Fyr­ir nokkru síðan staðfesti ég þriðju út­hlut­un úr Mat­væla­sjóði, að þessu sinni hátt í sjötta hundrað millj­ón­ir til hinna ýmsu verk­efna. Sam­tals hafa verið veitt­ir úr sjóðnum 1,6 millj­arðar síðan hon­um var komið á. Hlut­verk hans er að styrkja þróun og ný­sköp­un við fram­leiðslu og vinnslu mat­væla úr land­búnaðar- og sjáv­ar­af­urðum. Til mik­ils er að vinna. Síðustu ár hef­ur nýt­ing sjáv­ar­fangs batnað mikið og með nýrri tækni hef­ur náðst að vinna verðmæta vöru úr rækju­skel og roði.

Aukið virði afurða skipt­ir máli

Þessi þróun varð ekki af sjálfu sér held­ur hef­ur hún kostað mikla fjár­fest­ingu í gegn­um árin en er nú að skila sér í því að fyr­ir afurðir, sem áður fóru helst á út­sölu­verði í út­flutn­ing í fóður­gerð eða sam­bæri­legt, fæst nú hærra verð. Sama þróun verður að eiga sér stað með auka­af­urðir í land­búnaði. Þó að magn auka­af­urða úr slát­ur­hús­um verði aldrei af sömu stærðargráðu og auka­af­urðir úr sjáv­ar­út­vegi þá kann að vera að mik­il­vægi þeirra fyr­ir land­búnaðar­geir­ann sé engu síðra.

Nú þegar eru spenn­andi verk­efni í gangi sem hafa það að mark­miði að auka virði úr auka­af­urðum búfjár, inn­mat og fleiru. Fyr­ir­tæki sem fengu styrk úr fyrstu út­hlut­un sjóðsins eru byrjuð að hasla sér völl er­lend­is. Ein af for­send­um þess að það tak­ist að bæta af­komu sauðfjár­bænda er að auka virði þeirra afurða sem þeir fram­leiða. Þar eru auka­af­urðir hluti af heild­ar­mynd­inni þótt af­koma sauðfjár­bænda muni ekki velta á inn­mat frek­ar en af­koma sjáv­ar­út­vegs ræðst af roði. En eins og dæm­in sanna úr sjáv­ar­út­vegi þá get­ur aukið virði hliðar­af­urða skipt máli, þar sem þau hrá­efni eru þegar til staðar.

Þekk­ing sigr­ar sjúk­dóma

Full­nýt­ing og markaðssetn­ing nýrra afurða er ekki hið eina sem skipt­ir máli, held­ur einnig þær miklu fram­far­ir sem geta komið með þekk­ingu. Gull­fund­ur varð á þessu ári þegar gen, sem veit­ir vernd gegn riðu, upp­götvaðist í ís­lensku sauðfé. En í hátt í 150 ár hef­ur riðuveiki valdið miklu tjóni í ís­lenskri sauðfjár­rækt og reynst nán­ast ómögu­legt að upp­ræta þrátt fyr­ir mik­il, kostnaðar­söm og sárs­auka­full viðbrögð á borð við niður­skurð. En núna eru fyr­ir­heit um að loks­ins sé fær leið til að vinna loka­sig­ur á riðuveiki á Íslandi. Verk­efni sem snýr að því að gera grein­ingu á þessu geni hag­kvæm­ari fékk stuðning mat­væla­sjóðs í ár.

Gull­fund­ur sem þessi er til marks um hversu mik­il verðmæti þekk­ing get­ur fært ís­lensk­um land­búnaði og hversu mik­il­vægt verk­efni það er að vernda og kort­leggja erfðaauðlind­ir ís­lensks búfjár. Fjöl­mörg önn­ur mik­il­væg verk­efni hafa hlotið stuðning sjóðsins og eru til marks um mik­il­vægi hans fyr­ir framtíð ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search