Hinn 22. nóvember nk. verður haldið matvælaþing í Silfurbergi í Hörpu þar sem ég mun kynna drög að nýrri matvælastefnu matvælaráðuneytisins. Stefnan hefur verið í vinnslu síðan í febrúar þegar matvælaráðuneytið tók til starfa og er unnin samkvæmt þeim áherslum sem ég hef lagt upp með sem matvælaráðherra. Í stefnunni er fjallað hvernig unnið skuli að stefnumótun til framtíðar fyrir matvælaframleiðslu á Íslandi. Matvælaþinginu er ætlað að vera vettvangur samræðu og rýni hagaðila um stefnuna, þar sem verðmætasköpun er í sátt við samfélag og umhverfi.
Fjölbreyttar umræður og hugmyndir
Ný heimsmynd krefst nýrrar nálgunar, það sem okkur þótti áður sjálfgefið er það ekki lengur. Hugtök á borð við fæðuöryggi og matvælaöryggi eru orðin hluti af umræðu dagsins. Möguleikar Íslands í þessari nýju stöðu eru miklir. Landið er ríkt af auðlindum og þar af er ein sú stærsta mannauður. Um allt land eru skapandi fyrirtæki og frumkvöðlar að þróa nýjar aðferðir og nýjar vörur á sama tíma og við búum að aldagamalli hefð nýtingar lands og sjávar sem byggist á traustum grunni.
Á þinginu verða fjölbreyttar pallborðsumræður þar sem helstu áskoranir og tækifæri í matvælaiðnaðinum verða rýnd og rædd. Hluti þess fjölbreytta hóps sem mun taka þátt í umræðunum eru meðal annars Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórólfur Guðnason fyrrverandi sóttvarnalæknir.
Matvælaþingið fær einnig til sín góða erlenda gesti sem munu flytja erindi, þau Olgu Trofimtsevu fyrrverandi landbúnaðaráðherra Úkraínu og Pete Ritchie framkvæmdastjóra samtakanna Nourish Scotland.
Góðir erlendir gestir
Olga Trofimtseva er fyrrverandi landbúnaðarráðherra Úkraínu og doktor í landbúnaðarvísindum. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu af stjórnun landbúnaðarmála í heimalandi sínu og á alþjóðlegum vettvangi. Stríðið í Úkraínu hefur gjörbreytt heimsmyndinni, og hafa íbúar landsins og stjórnkerfi þurft að takast á við nýjan veruleika hvað varðar fæðuöryggi og aðfangakeðjur. Markmið samtakanna Nourish Scotland sem Pete Ritchie stýrir er að tryggja aðgang allra að næringarríkum mat á viðráðanlegu verði. Samtökin leggja áherslu á að Skotar rækti meira af því sem þeir borða, og borði meira af því sem þeir rækta.
Að matvælaþingi loknu mun matvælaráðuneytið vinna úr þeirri umræðu sem á sér stað á þinginu áður en matvælastefnan verður sett í samráðsgátt stjórnvalda. Í kjölfarið verður unnin þingsályktunartillaga um matvælastefnu sem ég mun leggja fyrir Alþingi, en henni er ætlað að verða leiðarstef í matvælaframleiðslu á Íslandi.
Ég hvet öll þau sem láta framleiðslu og dreifingu matvæla sig varða til að mæta í Hörpu 22. nóvember og taka þátt í matvælaþingi.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.