Search
Close this search box.

Með samstöðuna að vopni

Deildu 

Sumrinu hef ég varið í að tala við fólk. Þar sem við erum í miðjum heimsfaraldri hafa þau samtöl að einhverju leyti verið í gegnum net og síma, en sem betur fer höfum við Íslendingar getað farið ferða okkar nokkuð frjáls og ég því hitt fólk víða um land. Mér finnst áberandi eftir samtöl sumarsins, hvort sem þau hafa átt sér stað heima hjá mér í 101 eða í dreifðari byggðum, að þrátt fyrir allt ríkir bjartsýni og samstaða.

Heimsfaraldur sem dregið hefur hundruð þúsunda til dauða um allan heim, stærsta efnahagskreppa í rúma öld. Það upplifum við nú, en samt heldur fólk í vonina og samstöðuna. Stjórnvöld hafa stýrt málum þannig að þrátt fyrir allt hefur gengið nokkuð vel. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að fylgja ráðleggingum sóttvarnayfirvalda og það skilaði árangri sem eftir var tekið. Það skilaði sumri ferðalaga, fólk fór um landið, sýndi sig og sá aðra, talaði um ástandið, dæsti í kaffið og lýsti því yfir að þetta hefði nú verið meira. En saman gætum við þetta.

Þjóðin hefur nefnilega tekið höndum saman til að komast í gegnum ástandið. Ástand sem enn er í fullum gangi og óvíst hve lengi mun vara og samstaðan því enn mikilvægari en áður.

Öll skref sem stigin hafa verið, bæði í baráttu við veiruna og í efnahagsmálum, hafa verið ákveðin af ríkisstjórninni. Við höfum borið gæfu til að hafa við völd ríkisstjórn sem tekst á við ástandið með vísindi og þekkingu að vopni, hikar ekki við að beita ríkisfjármálum til að örva efnahagslífið. Það er pólitík sem ég er stoltur af.

Ekkert af þessu hefði nefnilega verið hægt nema fyrir samstöðu þjóðarinnar. Saman hefur hún tekist á við heimsfaraldur og djúpa efnahagskreppu og saman munum við fara í gegnum þetta. Af því getum við öll verið stolt.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search