Search
Close this search box.

Með togara í hjóna­rúminu

Deildu 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á ábyrga umgengni um auðlindir hafsins, gert fortakslausa kröfu um sjálfbæra nýtingu og bent á mikilvægi grunnrannsókna og fræðilegrar þekkingar í því sambandi.

Nú fer stjórnmálafólk úr öðrum flokki mikinn og lýsir yfir fullnaðarsigri stórútgerðarinnar og talað er um togara í hjónarúmum vegna breytinga á lögum um aflvísa skipa og að smábátasjómenn séu komnir á höggstokkinn vegna bráðabirgðatillagna starfshóps sem ætlað er að skapa sátt um greinina.

Stjórnmál samtímans krefjast samráðs, úrlausnarefnin eru fleiri og flóknari en nokkru sinni áður. Tillögurnar sem sagðar eru leggja smábátasjómenn á höggstokkinn eru nú í samráðsgátt stjórnvalda. Þar eru þær birtar í þágu lýðræðislegrar aðkomu almennings og hagaðila, t.a.m. smábátasjómanna og hefur áður óþekktur metnaður verið lagður í samráð við þetta verkefni. Tillögurnar fara síðan til umræðu í samráðsnefnd um sjávarútveg. Í kjölfarið verður unnið úr athugasemdum og endanlegar tillögur kynntar í vor. Endanlegar tillögur fara svo aftur í samráð. Með þessu vill ráðherra tryggja réttláta og lýðræðislega aðkomu vegna þess langvarandi ósættis sem ríkt hefur um sjávarútveg.

Tillögurnar eru sextíu talsins og eru meðal annars lagðar fram til að skapa umræðu og kalla fram viðbrögð í samfélaginu, bæði á Alþingi, hjá hagsmunaaðilum og sem víðast. Þetta kemur okkur öllum við, enda undirstöðuatvinnugrein.

Því miður leiðist umræðan um þennan veigamikla málaflokk oft út í pólitíska útúrsnúninga og fyrirsagnir. „Leiðinlega svarið“ við fullyrðingunni um togara í hjónarúminu er því miður sú að með brottfellingu aflvísa úr 5. gr. laga um fiskveiðilandhelgi Íslands verður eingöngu horft til lengdartakmarkana á því hvar skip mega veiða. Lagabreytingin gefur útgerðum þar með kost á því að nýta sparneytnari vélar og draga þar með úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, sem einmitt er hluti af boðuðum breytingum VG í málaflokknum. Þetta á aðeins við um skip sem mega veiða innan 12 mílna lögsögunnar þegar horft er til lengdar þeirra.

Skip stærri en 29 metrar mega því hér eftir sem hingað til ekki veiða innan lögsögunnar nema í undantekningartilfellum sem þá þegar eru í lögum og varða skip að 42 metrum að lengd.

Að lokum vill höfundur vísa til þess að strandveiðar á árinu 2022 voru þær farsælustu fyrir land og þjóð frá upphafi veiðanna.

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search