Search
Close this search box.

Menningararfur fiskveiðiþjóðar

Deildu 

Skip og bátar sem minna á atvinnusögu og alþýðumenningu eru menningararfur sem er samofin sögu þjóðarinnar. Lögum samkvæmt teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa og skipsflök og hlutar þeirra til fornleifa.  Um er að ræða gríðarlegt magn ómetanlegra menningarverðmæta úr sjávarútvegi og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld.  

Í fornbátaskrá Sambands íslenskra sjóminjasafna er að finna skilmerkilega skráningu rúmlega 190 fornra báta ásamt leiðarvísi um mat á varðveislugildi þeirra. Vert að taka fram að fornbátaskrá nær einvörðungu til báta í eigu safna, setra og sýninga, sem og skipa á skipaskrá sem eru smíðuð fyrir 1950, en talsverður fjöldi skipa og báta var ekki skráður. Á það til að mynda við um súðbyrðinga og önnur minni fley í eigu einstaklinga og áhugafélaga. Fleiri aðilar hafa beitt sér fyrir varðveislu þessa menningararfs, má þar nefna Síldarminjasafnið og Vitafélagið – Íslenska strandmenningu.

Fá verkefni er varða varðveislu og uppgerð gamalla skipa og báta hafa hlotið styrki undanfarin ár úr fornminjasjóði. Úthlutunarfjárhæðir til slíkra verkefna hafa verið rúm 4% af heildarúthlutunum hvers árs. Ennfremur hefur ekki tekist að koma á fyrirkomulagi sem tryggir vernd þeirra og björgun. Viðhald og björgun bátaarfsins hefur af þeim sökum verið í höndum einstaklinga og áhugasamtaka sem hafa sótt um styrki og beitt sér í þágu hans. Nýlegt dæmi um slíkt eru fjármunir sem úthlutað var vegna uppgerðar Maríu Júlíu, fyrsta varð- og hafrannsóknaskips Íslendinga. Sömu sögu er ekki að segja af eina kútternum sem ber nafn með rentu, kútter Sigurfara, en útlit er fyrir að brátt þurfi að farga þessu fornfræga flaggskipi endurgerðar á Íslandi.

Árið 2021 komst handverk sem notað er við gerð súðbyrðinga á heimsminjaskrá UNESCO – um óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Viðurkenning UNESCO er þýðingarmikil og minnir á að menningararf beri að varðveita fyrir ókomnar kynslóðir. Ábyrgð okkar sem þjóðar er því ekki aðeins gagnvart eigin sögu og komandi kynslóðum heldur heimsbyggðinni allri. Undir þetta hafa íslensk stjórnvöld skrifað og knýr það enn frekar á um að mótuð verði fjármögnuð framtíðarstefna fyrir málaflokkinn.

Margt er hægt að læra af ólíku fyrirkomulagi fjármögnunar annarra Norðurlanda við varðveislu, björgun og endurgerð skipa- og bátaarfs síns. Í Færeyjum eru þrjú skip á pari við kútter Sigurfara uppgerð og það fjórða í endurgerð. Skip og bátar geta einnig öðlast nýtt hlutverk í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila, geta prýtt söfn og hafnir og orðið að eftirsóknarverðum áfangastöðum um land allt. Þau geta nýst í ferðaþjónustu, til rannsókna og til að viðhalda þekkingu á handverki.

Við, fiskveiðiþjóðin Ísland, verðum að bera meiri virðingu fyrir þessum menningararfi og hlúa að honum svo sómi sé að. Á meðan ekki kemur til skýr stefnumörkun, heildarsýn og raunhæf markmið stjórnvalda til björgunar þessa mikla menningararfs er voðinn vís. Þess vegna hef ég lagt fram á alþingi þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórn Íslands að móta framtíðarstefnu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins. Með því er fyrsta skrefið stigið í átt að því að koma á fyrirkomulagi sem skipar mikilvægum menningararfi sinn verðuga sess.

Jódís Skúladóttir er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search