Search
Close this search box.

 Menningargatan í Miðbænum

Deildu 

Það verða tímamót þegar Listaháskóli Íslands flytur og sameinar starfsemi sína í Tollhúsið við Tryggvagötu. Í alllangan tíma hefur verið reynt að finna skólanum hentugan stað svo hann geti vaxið og dafnað og útskrifað fólk sem veitir okkur hinum lífsgleði og ánægju og færir okkur nær mennskunni og heiminum öllum með listsköpun sinni. Og í dag verður loksins gengið frá undirritun samnings um framtíðarhúsnæði Listaháskólans.

Og það er fleira í pípunum í Reykjavík sem kemur til með að færa okkur þróttmikla listsköpun og menningu. Reykjavíkurborg hefur fest kaup á Hafnarhúsið af Faxaflóahöfnum með það fyrir augum að koma upp safni Nínu Tryggvadóttur. Einnig stendur til að færa Ljósmyndasafnið í húsnæðið og þar með bæta til muna aðstöðu safnsins. En þar verður ekki látið við sitja. Húsið er stórt og eftir mikla og frjóa hugarflugsvinnu og aðkomu margra ólíkra hópa að henni hefur verið ákveðið að gera Hafnarhús að miðstöð margra safna sem var orðað svo skemmtilega í skýrslu starfshóps sem mótaði tillögurnar: „Hafnarhús -einn rómur mörg söfn.“ Tækifærin sem felast í endurskipulagningu Hafnarhússins eru því óteljandi en að mörgu er að hyggja. Það þarf að huga að aðgengi allra hópa, fjölbreyttum listformum, leiksvæðum fyrir börn, fögrum almannarýmum, veitingasölu og fleira mætti telja í þessu spennandi verkefni sem felst í endurnýjun þessa fornfræga húss.

Eitt er þó víst, þrátt fyrir að margt eigi eftir að gera í Hafnarhúsinu, að með tilkomu Listaháskólans í Tollhúsið skapast suðurpottur menningar og sköpunar, líflegt og margs konar mannlíf og mikil nálægð fjölbreyttra lista- og menningarhúsa sem geta þroskað okkur og veitt okkur lífsfyllingu, gleði og sjálfsþekkingu. Til hamingju Listaháskóli Íslands með þessi tímamót. Og til hamingju Reykvíkingar og listunnendur.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í komandi borgarstjórnarkosningum. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search