Search
Close this search box.

Menntun eykur velsæld

Deildu 

Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna um menntun fór fram í tengslum við opnun Allsherjarþingsins nú á dögunum. Menntamálin eru í brennidepli – ekki síst vegna þess að menntun getur verið lykill að árangri á svo fjöldamörgum sviðum. Í kjölfarið átti ég góðan fund með fulltrúum kennara og stjórnenda til að ræða stöðuna í íslensku skólakerfi.

Við eigum ýmis jöfnunartæki í samfélagi okkar. Skattkerfið er eitt þeirra, menntakerfið er annað. Í skólunum okkar á öllum skólastigum mætast ólíkar hópar barna, með ólíkan bakgrunn og lífsreynslu. Þar gefst einstakt tækifæri til að hlúa að hverjum og einum og tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína og vaxa og dafna.

Skólafólkið okkar stóð vaktina í gegnum tvö ár af heimsfaraldri þar sem áfram var tryggt að börn gætu sótt skóla þrátt fyrir sóttvarnatakmarkanir. Kennarar, skólastjórnendur og annað starfsfólk skóla þurfti reglulega að endurskipuleggja allt starf skólanna til að tryggja menntun barnanna okkar.

Á sama tíma hafa skólarnir okkar gengið í gegnum ógnarhraðar breytingar þar sem nemendahópurinn hefur orðið fjölbreyttari, ný tækni hefur breytt námsumhverfinu og samfélagsmiðlar hafa breytt öllum samskiptum barna og fullorðinna.

Reglulega heimsæki ég skóla og fyllist virðingu gagnvart því góða faglega starfi sem þar fer fram – stundum við flóknar aðstæður þar sem nemendahópurinn talar mörg tungumál, sumir nemendur koma úr erfiðum aðstæðum og börnin öll þurfa að ræða heimsmálin, áhyggjur sínar af loftslagi, stríði og öðrum samfélagslegum áskorunum.

Á undanförnum árum höfum við stigið stór skref til að efla farsæld barna með því að breyta lögum og reglum um málefni barna. Hugsunin er sú að búa vel að hverju einasta barni og tryggja þannig farsæld samfélagsins alls. Skólarnir okkar eru lykilstofnanir í þessu samhengi og það skiptir miklu að við sem samfélag búum vel að þeim – bæði starfsfólki og nemendum. Þannig tryggjum við aukna velsæld í samfélaginu öllu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search