Search
Close this search box.

Mesta gæfan

Deildu 

Guði, Óðni og öllum vættum sé lof fyrir að Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í faraldri sem lamar alla heimsbyggðina. Konur sem hika ekki við að setja sjálfar sig til hliðar og hlusta á sérfræðinga, nokkuð sem ráðamenn annarra þjóða hafa ekki getað gert. Konur sem bogna ekki heldur halda skýrum haus og stefna áfram í rétta átt með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Kippa sér ekki upp við þann vaðal sem oft einkennir umræðuna.

Það sama verður ekki sagt um alla stjórnmálamenn. Sumir virðast helst stefna að því að gera allt sitt til að Ísland missi niður þann góða árangur sem náðst hefur í sóttvörnum. Markmiðið virðist vera að við séum á pari við Evrópu varðandi fjölda smita, sem þýðir fjölgun hér. Það er sett í búning sífelldra efasemda um hömlur í sóttvarnaskyni, stóryrtra yfirlýsinga gegn ákvörðunum heilbrigðisráðherra. Látið er eins og hagsmunir samfélagsins séu ekki mestir í því að hafa sem fæst smit. Þeir teygja sig í allar áttir, vilja ýmist að við gerum eins og Nýja-Sjáland, hvar hömlur hafa einmitt verið meiri en hér, eða Svíþjóð og afléttum hömlunum.

Stjórnarandstaðan hefur svo sýnt sig hlaupa á eftir öllum gagnrýnisröddum og segja: Ég sagði það, ég sagði það! Við hefðum átt að ráða! Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að þar er engin stefna, enginn valkostur við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til. Ábyrgðarleysið slíkt að oft og tíðum er ekki hikað við að nýta sér heimsfaraldur til að fá tímabundna athygli, aðeins athyglinnar vegna.

Ég þakka fyrir að hafa þessar öflugu forystukonur við stjórnvölinn í heimsfaraldrinum. Það er mesta gæfan. Engir aðrir stjórnmálamenn hefðu staðið sig álíka vel.

Guði, Óðni og öllum vættum sé lof fyrir Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og hans góðu ráð. Og þríeykið allt. Við munum nefnilega komast út úr þessu saman.

Kolbeinn Óttarsson Proppé er þingmaður Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search