Á undanförnum árum hefur Ísland markað sér stöðu sem ríki sem stendur að mörgu leyti framarlega í loftslagsmálum. Á leiðtogafundinum á laugardag höldum við áfram á þeirri braut og kynnum þrjú ný metnaðarfull markmið;
a) Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40% samdrátt m.v. árið 1990 í 55% eða meira til ársins 2030 en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi.
b) Efldar aðgerðir einkum í landnotkun, sem munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auki áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum árið 2030.
c) Aukin áhersla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni einkum á sviði sjálfbærrar orku.
Þó að heimsfaraldur kórónuveiru hafi yfirskyggt flest önnur verkefni undanfarna mánuði þá hefur loftslagsváin síður en svo horfið á meðan. Í upphafi þessa kjörtímabils ákvað ríkisstjórnin að forgangsraða loftslagsmálunum og kynnti fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum strax haustið 2018. Flaggskip aðgerðaáætlunar eru samdráttur í losun frá samgöngum með orkuskiptum og landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Þar settum við okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
Í sumar kynntum við svo uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem staðfest var að með þeim verkefnum sem fóru af stað í fyrri áætlun hefði þegar náðst sá árangur að hægt væri að gera ráð fyrir meiri samdrætti í losun en krafa er gerð um í núverandi samkomulagi Íslands og Noregs við ESB. Ísland er því vel undirbúið að takast á hendur ný metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum.
Með aðgerðaáætluninni er komið öflugt stjórntæki í loftslagsmálum með mælanlegum markmiðum og fjármögnuðum aðgerðum sem skila nú þegar árangri. Fjárframlög til umhverfismála hafa aukist um 47% í tíð þessarar ríkisstjórnar og þar af hafa bein framlög til loftslagsmála ríflega áttfaldast auk verulegrar aukningar á ívilnunum til vistvænna ökutækja, virkra ferðamáta og hleðslustöðva auk stuðnings við breyttar ferðavenjur. Nauðsynlegt er þó að efla valdar aðgerðir á því sviði í tengslum við metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun og það er hægt að gera m.a. með því að flýta aðgerðum í orkuskiptum og auka stuðning við loftslagsvæna nýsköpun. Til þessa verður horft við gerð næstu fjármálaáætlunar á vordögum.
Til að ná markmiði um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu lykilaðgerð til að ná árangri, auk annarra aðgerða í landnotkun, s.s. endurheimt votlendis. Efla þarf slíkar aðgerðir sem geta samhliða frumkvöðlastarfi við bindingu kolefnis í berglögum markað Íslandi sérstöðu meðal fremstu ríkja varðandi upptöku kolefnis úr andrúmslofti, sem er ein megináhersla í Parísarsamningnum. Þær eru einnig til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands, skapa störf og styrkja byggðir, auk þess að vera „náttúrulegar loftslagslausnir“, sem stuðla að vernd og endurheimt vistkerfa og landgæða. Með auknum aðgerðum á þessu sviði getur Ísland náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust varðandi losun á beinni ábyrgð Íslands í kringum árið 2030.
Framlög Íslands til loftslagstengdra verkefna í þróunarsamvinnu munu aukast um 45% á næsta ári í samanburði við yfirstandandi ár. Þar er sérstaklega horft til verkefna á sviði sjálfbærrar orku með tilliti til íslenskrar sérþekkingar, aðallega jarðhitanýtingar í Austur-Afríku.
Okkar stærsta áskorun
Loftslagsváin hefur skapað neyðarástand nú þegar víða um heim. Hún er okkar stærsta áskorun. Okkar stærsta verkefni er að draga úr hraða þessarar ógnvænlegu þróunar, lágmarka skaðann og tryggja framtíð okkar og lífríkisins alls á þessari plánetu. Því að mannkynið á ekki eftir að fá annað tækifæri á annarri plánetu heldur aðeins það tækifæri sem við höfum hér og nú.
Í slíku ástandi skiptir máli að nýta lærdóma fortíðar en lykilatriðið er samt núið: það sem við ætlum að gera núna. Það er mikilvægt að finna fyrir aukinni vitund hjá almenningi um mikilvægi þess að við leggjum öll okkar lóð á vogarskálarnar. Það veitir okkur öllum aukið hugrekki til aðgerða. En baráttan verður ekki eingöngu lögð á almenning. Samstarf ríkis, sveitarfélaga, fjárfesta, atvinnurekenda, samtaka launafólks og umhverfis- og náttúruverndarsamtaka og margra fleiri er nauðsynlegt til að draga vagninn. Samstillt átak er forsenda þess að við náum raunverulegum árangri.
Þó að heimsfaraldurinn hafi tekið mesta okkar athygli undanfarna mánuði þá er það líka svo að við höfum tækifæri til að gera hlutina öðruvísi að lokinni kreppu. Við leggjum áherslu á að viðspyrnan verði græn. Meðal annars með því að tryggja með jákvæðum hvötum að kraftur einkafjárfestingar styðji við græna umbreytingu, kolefnishlutleysi og samdrátt gróðurhúsalofttegunda. Það gerum við líka með því að halda áfram að auka stuðning okkar við grænar fjárfestingar hins opinbera.
Við erum á réttri leið. Við settum okkur skýr markmið í upphafi kjörtímabils og höfum fylgt þeim eftir af festu og ákveðni. Til að ná raunverulegum árangri í baráttunni við loftslagsvána skiptir nefnilega öllu að láta verkin tala. Ísland á að skipa sér í fremstu röð í þessum málum; börnin okkar eiga að geta litið um öxl og sagt: Hér var gripið í tauma og ráðist í aðgerðir fyrir framtíðina. Það er ekki eingöngu okkar ábyrgð – heldur líka tækifæri fyrir Ísland til framtíðar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.