Í heilbrigðisstefnu koma fram þau markmið að íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Embætti landlæknis hefur það hlutverk að sinna mikilvægu lýðheilsustarfi og styðja við heilsueflingu í sveitarfélögum og skólum um allt land. Embættið heldur einnig utan um lýðheilsuvísa og birtir þá fyrir hvert heilbrigðisumdæmi á Íslandi, en lýðheilsuvísar eru hugsaðir sem liður í því að veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig og til að sjá samanburð við landið í heild.
Í því skyni að ná markmiði heilbrigðisstefnu um enn öflugra lýðheilsustarf lagði ég fram þingsályktunartillögu um lýðheilsustefnu á alþingi í mars 2021. Með þingsályktuninni er haldið áfram þeirri vegferð sem lögð var fram í lýðheilsustefnu sem var samþykkt árið 2016 en með henni var mótaður fyrsti hluti stefnu og aðgerða sem stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu á öllum aldursskeiðum með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri.
Lýðheilsustefnan er liður í því að halda áfram umræðu um lýðheilsu á Íslandi, en nauðsynlegt er að stefnumótun fyrir lýðheilsu hvíli á traustum grunni og að sátt ríki um þau sjónarmið sem eru leiðarljós lýðheilsustefnu á Íslandi til ársins 2030.
Lýðheilsa er þverfaglegt hugtak sem hefur breiða skilgreiningu og lýðheilsustarf í heild sinni byggist á þverfaglegu samstarfi og samvinnu í samfélaginu. Góð lýðheilsa er ekki aðeins háð lifnaðarháttum þjóðarinnar og góðu heilbrigðiskerfi heldur skipta félags- og efnahagslegir þættir eins og menntunarstig, atvinna og félagsleg tengsl miklu máli, sem og umhverfisþættir. Þess vegna er ljóst að stefnumörkun í öðrum málaflokkum en heilbrigðismálum snertir lýðheilsu á marga vegu, beint og óbeint.
Til þess að markmið lýðheilustefnu verði að veruleika eru lögð fram í henni meginviðfangsefni sem ætlað er að styrkja stoðir lýðheilsu á Íslandi með jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi. Stefnunni sjálfri er efnislega skipt upp í sjö kafla með sama hætti og samþykkt þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu til 2030.
Lagt er til að framtíðarsýn fyrir lýðheilsu á Íslandi verði, að lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist af þverfaglegu samstarfi heilbrigðiþjónustu, sérstaklega heilsugæslu, og annarra hagaðila á Íslandi, t.d. sveitarfélaga, með áherslu á heilsueflingu og forvarnir.
Ég mælti fyrir þingsályktunartillögu um lýðheilsustefnu á Alþingi í lok mars 2021. Samþykkt lýðheilsustefnu væri heillaskref fyrir bætta lýðheilsu landsmanna, og þar með heillaskref fyrir okkur öll.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.