Search
Close this search box.

Mikilvægar breytingar í þágu sykursjúkra

Deildu 

Fólki með insúlínháða sykursýki (sykursýki I) mun fljótlega standa til boða nýr búnaður sem gerir notendum kleift að fylgjast á einfaldan hátt með blóðsykri sínum og stuðlar þannig m.a. að markvissari meðferð. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð sem tryggir niðurgreiðslu búnaðarins og kveður jafnframt á um breytingu í þágu þeirra sem ekki geta eða eiga kost á að nýta sér fyrrnefndan búnað, þannig að sömu reglur gildi fyrir alla, ólíkt því sem verið hefur. Reglugerðin tekur gildi 1. janúar næstkomandi.

Búnaðurinn er nýr hér á landi en nokkur reynsla er komin af honum erlendis þar sem notkun hans hefur breiðst hratt út og eftirspurn er mikil. Í Svíþjóð nota til að mynda um 75% einstaklinga með sykursýki 1 þennan búnað. Um er að ræða nema sem fylgist með blóðsykri í gegnum húð og notandi ber á sér að staðaldri. Tæknin er hagkvæm og notendavæn og ýtir undir heilsulæsi notenda. Þeir sem eru með búnaðinn geta hlaðið smáforriti í símann sinn sem fylgist með og heldur utan um allar mælingar. Þessum upplýsingum er hægt að deila með heilbrigðisstarfsfólki á einfaldan hátt og nýta þannig kosti fjarheilbrigðisþjónustu fyrir ráðgjöf og leiðbeiningar.

Sjúkratryggingar Íslands hafa um nokkurt skeið reynt að ná samningi um að kaupa búnaðinn beint frá framleiðanda en smæð íslensks markaðar reynst fyrirstaða. Áætlað er að hér á landi séu um 650 manns sem geti og muni nýta sér búnaðinn á næstu tveimur árum og hefur Sjúkratryggingum Íslands nú tekist að afla búnaðarins fyrir notendur hér á landi.

Þessi nýjung mun breyta miklu fyrir fjölda fólks með insúlínháða sykursýki hér á landi. Ég veit að margir hafa  beðið eftir þessu með óþreyju og því er einstaklega ánægjulegt að nú hafi Sjúkratryggingum Íslands tekist að tryggja kaup á þessum búnaði fyrir fólk hér á landi segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Þegar upp er staðið er gert ráð fyrir að innleiðing þessa búnaðar muni ekki fela í sér aukin útgjöld, heldur leiða til lítilsháttar hagræðingar. Með fyrrnefndri breytingu sem kveðið er á um í reglugerð heilbrigðisráðherra er tekið fyrir þá mismunun varðandi greiðsluþátttöku í búnaði fyrir fólk með sykursýki sem verið hefur hingað til. Sömu reglur munu gilda um kostnaðarþátttöku hvort sem um er að ræða börn, fullorðna eða lífeyrisþega. Enn fremur er með reglugerðinni kveðið á um að fólk sem er nýgreint með sykursýki II fái niðurgreidda fleiri blóðstrimla til blóðsykursmælinga fyrsta árið eftir greiningu, þar sem talið er mikilvægt að þeir geti mælt blóðsykurinn oftar, allt að fjórum sinnum á dag til að byrja með.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search