Covid-19-heimsfaraldur er í mikilli uppsveiflu þessa dagana. Innanlandsaðgerðir voru hertar vegna fjölgunar smita í lok síðustu viku þegar reglur um grímuskyldu tóku gildi en hertar reglur taka gildi að fullu á miðvikudaginn, 10. nóvember. Það er mín von að með því að fara varlega, fylgja reglunum og gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum náum við að takmarka útbreiðslu veirunnar sem allra fyrst, og vernda þannig heilbrigðiskerfið og líf og heilsu landsmanna.
Bólusetningar við Covid-19 hafa skilað miklum árangri hér á landi. Framkvæmd bólusetninga gekk vel og almenn þátttaka var með því mesta sem þekkist. Í nýrri samantekt embættis sóttvarnalæknis er fjallað um ávinning bólusetningar. Þar kemur fram að einstaklingur sem á í nánum samskiptum við Covid-smitaðan einstakling er 50% ólíklegri til að smitast hafi hann fengið fulla grunnbólusetningu en væri hann óbólusettur. Líkur á alvarlegum veikindum hjá bólusettum einstaklingi sem smitast eru jafnframt um fimmfalt lægri en hjá óbólusettum. Sá sem er bólusettur en smitast samt af Covid-19 er enn fremur mun ólíklegri til að smita aðra. Því hvet ég öll sem enn hafa ekki verið bólusett að fara í bólusetningu hið fyrsta.
Ákveðið hefur verið að boða um 160.000 manns um land allt í örvunarbólusetningu fyrir áramót. Sóttvarnalæknir hefur sagt að góð þátttaka í örvunarbólusetningum gegn Covid-19, sambærileg við það sem var í bólusetningum í vor, sé forsenda þess að við náum tökum á útbreiðslu veirunnar. Einnig benda rannsóknir, t.a.m. frá Ísrael, til þess að með örvunarbólusetningu megi draga verulega úr líkum á smiti eða alvarlegum veikindum af völdum Covid-19. Á höfuðborgarsvæðinu verða örvunarbólusetningar gefnar í Laugardalshöll 15. nóvember til 8. desember. Örvunarskammtar eru ætlaðir þeim sem þegar eru bólusettir og verða boðnir öllum 16 ára og eldri þegar a.m.k. 5 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu. Mig langar því að hvetja öll til að mæta einnig í örvunarbólusetningu þegar það býðst.
Annað sem skiptir miklu núna er mönnun bakvarðasveitar heilbrigðisþjónustunnar. Vegna örrar fjölgunar Covid-19-smita með auknu álagi á heilbrigðiskerfið bráðvantar fleira heilbrigðisstarfsfólk á skrá í bakvarðasveitina, og óskað er eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks sem er reiðubúið að koma tímabundið til starfa með skömmum fyrirvara, hvort sem er í fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa. Bakvarðasveitin er mikilvægur þáttur í viðbragði okkar við Covid-19 og öll sem skrá sig í hana eiga miklar þakkir skildar.
Það er auðvitað ekki óskastaða að veiran sé enn og aftur á uppleið, en með samstilltu átaki komust við í gegnum þessa bylgju, eins og við höfum gert áður. Það er ég sannfærð um.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra