PO
EN

Mikilvægi heildarsýnar

Deildu 

Á dögunum kynnti ríkisstjórnin heildarsýn í útlendingamálum en hún byggir á vinnu sem unnið hefur verið að undanfarið eina og hálfa ár.

Heildarsýn í málaflokknum er mikilvæg. Ekki málaflokksins vegna heldur fólksins vegna. Fólksins sem hingað leitar, ýmist að vinnu, nýjum tækifærum eða hæli undan stríðsátökum í heiminum sem nóg virðist vera af. Þetta er nefnilega ekki einsleitur hópur þó sum láti að því liggja í umræðunni. Um 80% þeirra sem hér búa og eru ekki af íslensku bergi brotin koma hingað á grundvelli frjáls flæðis innan EES-landanna, um 10% utan EES-landanna og önnur 10% í leit að alþjóðlegri vernd.

Á grundvelli þeirra aðgerða sem koma fram í heildarsýn ríkisstjórnarinnar verður tekið utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti með aukinni samhæfingu á milli ráðuneyta og stofnana. Markmiðið er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan málaflokksins, og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Lögð er áhersla á mannúð og virðingu og unnið gegn skautun í íslensku samfélagi.

Skautun er nefnilega varasöm hverri orðræðu. Að stuðla að skautun þegar við erum að ræða um líf og limi fólks er engu samfélagi hollt, leyfi ég mér að fullyrða. Við sjáum óhugnanlega þróun vegna skautunar í samfélagsumræðu í ýmsum löndum. Þannig rökræður – jafnvel einræður – enda bara úti í skurði. Og ekki sama skurðinum. Það er gefið.

Í þeirri stjórnmálahreyfingu sem ég tilheyri þá höfum við lagt áherslu á að mótuð verði heildarsýn á málaflokkinn. Við viljum t.a.m. aukna íslenskukennslu, stóraukinn stuðning við börn af erlendum uppruna sem og samfélagsfræðslu sem hluta af inngildingu. Við viljum aukna aðlögun og inngildingu og aðgerðir til að tryggja jöfnuð og velsæld allra borgara samfélagsins. Samfélagsins sem samanstendur af allskonar fólki.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur boðað tillögu til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks á næsta þingvetri en unnið er að heildstæðri stefnumótun henni til grundvallar þessa dagana. Þá mun ráðherra einnig leggja fram frumvarp um móttöku flóttafólks og inngildingu innflytjenda á haustþingi. Hér getum við lært af nágrönnum okkar og frændum á Norðurlöndunum því það verður að segjast eins og er að hin Norðurlöndin standa okkur framar í regluverkinu hvað varðar móttöku og inngildingu þeirra sem til landsins leita. Við getum lært af því sem betur hefði mátt fara í þeirra samfélögum og tekið upp það sem vel er gert.

Við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem vilja búa hér, tryggja jöfnuð og velsæld allra borgara samfélagsins. Það er samfélagslegt verkefni enda samanstendur samfélagið af allskonar fólki, héðan og þaðan.

Höfundur er Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search