PO
EN

Mikilvægt skref á vakt VG

Deildu 

Senn líður að lokum þessa árs sem hefur verið viðburðaríkt hjá okkur öllum í samfélaginu. Það er mjög ánægjulegt að geta litið um öxl með stolti yfir því sem hefur verið áorkað á sviði velferðarmála og það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi vinnu í þeim málaflokki.Mikil vinna hefur farið fram í ráðuneyti félags- og vinnumarkaðsráðherra þar sem lagt hefur verið af stað í tímabæra vegferð til að umbylta löngu stöðnuðu og flóknu kerfi.Lagt hefur verið fram frumvarp um lengingu endurhæfingartímabils úr 18 mánuðum í 36 mánuði með möguleika á framlengingu um ár í viðbót, en markmið þess er að tryggja að einstaklingar sem misst hafa starfsgetuna fái endurhæfingarlífeyri til lengri tíma þar sem starfsendurhæfing með aukna atvinnuþátttöku að markmiði telst raunhæf.

Þetta eru stór og þörf skref í áttina að réttlátara kerfi.

Nýlega var tvöföldun frítekjumarks atvinnutekna örorkulífeyrisþega samþykkt í ríkisstjórn. Það hækkar nú upp í 200 þúsund, eftir að hafa staðið óbreytt frá árinu 2009. Þetta eru stór og þörf skref í áttina að réttlátara kerfi.Samþykkt var í fjárlaganefnd breytingartillaga þess efnis að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fái 60.300 króna eingreiðslu núna í desember í stað þeirra 28 þúsund króna sem gert var ráð fyrir. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu, ekki síst vegna verðbólgu, er nauðsynlegt að gera betur í þessum málum, eins og ég gerði grein fyrir strax við fyrstu umræðu fjáraukalaga, það er því mikið fagnaðarefni að Alþingi stóð með þessari breytingu af einhug.Í farvatninu á vormánuðum er síðan að fjölga hluta- og sveigjanlegum störfum fyrir þennan hóp og einfalda um leið þann hluta kerfisins sem snýr að greiðslum og þjónustu, fjarlægja þá þröskulda sem koma í veg fyrir virkni og að hægt sé að komast í skrefum inn á vinnumarkaðinn. Það sem hefur áunnist á vakt VG og þessi mikilvægu verkefni sem eru fram undan gefa okkur því fullt tilefni til bjartsýni.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search