PO
EN
Search
Close this search box.

Milljarðar til sjúklinga

Deildu 

Milljörðum varið í að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga

Komugjöld í heilsugæslu verða felld niður í áföngum, niðurgreiðslur sjúkratrygginga fyrir tannlæknisþjónustu og lyf verða auknar og sömuleiðis vegna tiltekinna hjálpartækja og reglur um ferðakostnað verða rýmkaðar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag áform um ráðstöfun 1,1 milljarðs króna á næstu tveimur árum til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Hluti aðgerðanna kemur til framkvæmda 1. janúar næstkomandi. Í fjármálaáætlun stjórnvalda eru 3,5 milljarðar króna ætlaðir til að draga úr kostnaði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu til ársins 2024.

„Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga er afgerandi  þáttur í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu og sporna við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum. Markmiðið er að greiðsluþátttakan verði á pari við það sem best gerist á Norðurlöndunum og hér kynni ég mikilvæg skref að því marki“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Komugjöld í heilsugæslu felld niður í áföngum

Þann 1. janúar næstkomandi lækka almenn komugjöld í heilsugæslu úr 1.200 krónum í 700 krónur eða um rúm 40%. Þetta á við um komur fólks á dagvinnutíma á heilsugæslustöð þar sem viðkomandi er skráður. Aukin framlög ríkisins vegna þessarar aðgerðar nema um 135 milljónum króna á næsta ári. Áformað er að fella komugjöld í heilsugæslu á dagvinnutíma niður að fullu árið 2021 og er áætlaður kostnaður vegna þess um 350 milljónir króna. Líkt og verið hefur greiða börn, aldraðir og öryrkjar ekki komugjöld í heilsugæslu.

Auknar niðurgreiðslur til tannlækninga í þágu barna og lífeyrisþega

Á næstu tveimur árum er áætlað að auka framlög til tannlæknisþjónustu við börn og lífeyrisþega um samtals 320 milljónir króna. Fyrsta skrefið verður stigið 1. janúar næstkomandi þegar öllum börnum sem fæðast með skarð í efri tannboga eða með klofinn góm verður tryggður réttur til endurgreiðslu vegna tannlækninga og tannréttinga sem nemur 95% af gjaldskrá tannlæknis. Árið 2021 er gert ráð fyrir 90 milljóna króna auknu framlagi til að mæta útgjöldum fólks til tannlæknisþjónustu vegna slysatilvika og meðfæddra galla. Þá er einnig gert ráð fyrir 200 milljónum króna í auknar niðurgreiðslur til tannlækninga lífeyrisþega árið 2021. Samkvæmt fjármálaáætlun er svigrúm til að auka framlögin árlega um 200 milljónir króna árin 2021 – 2024 og lækka með því greiðsluþátttöku lífeyrisþega vegna tannlækninga úr 50% í 25% á tímabilinu.

Lækkun lyfjakostnaðar

Frá 1. janúar næstkomandi verða hormónatengdar getnaðarvarnir felldar undir lyfjagreiðsluþátttökukerfið fyrir konur sem eru 20 ára eða yngri. Áætluð útgjaldaaukning vegna þess nemur um 40 milljónum króna. Árið 2021 er gert ráð fyrir um 50 milljónum króna til að lækka þak á árleg hámarksútgjöld einstaklinga vegna lyfjakaupa. Sama ár er einnig ráðgert að verja um 20 milljónum króna í niðurgreiðslur á hormónalykkjunni fyrir konur sem þurfa á henni að halda af klínískum ástæðum, t.d. vegna endómetríósu. Til lengri tíma litið hefur heilbrigðisráðherra sett fram áætlun með hliðsjón af fjármálaáætlun stjórnvalda um að 1,1 milljarði króna verði varið sérstaklega til að lækka lyfjaútgjöld lífeyrisþega, barna og ungmenna.

Hjálpartæki: bætt þjónusta við lungnasjúklinga og fólk með sykursýki

Léttum súrefnissíum verður fjölgað umtalsvert á næsta ári en slíkar síur geta verið mikilvæg forsenda fyrir virkni fólks með lungnasjúkdóma og þátttöku í daglegu lífi. Nú eiga um 120 einstaklingar kost á þessum búnaði en áætlað er að tryggja framboð á léttum súrefnissíum fyrir allt að 250 manns. Aukin fjárframlög vegna þessa eru áætluð um 35 milljónir króna.

Tekinn verður í notkun búnaður fyrir sykursjúka sem er nýr hér á landi. Þetta eru nemar sem fylgjast með blóðsykri í gegnum húð notenda að staðaldri og hafa reynst afar vel. Þessi tækni breiðist ört út í heiminum, er hagkvæm, notendavæn og ýtir undir heilsulæsi notendanna. Í Svíþjóð nota til að mynda um 75% einstaklinga með sykursýki 1 þennan búnað. Hingað til hefur smæð markaðarins hér á landi komið í veg fyrir innflutning á þessum búnaði, en nú hefur verið ráðið fram úr þeim vanda. Búnaðurinn mun standa til boða þeim sem eru með insúlínháða sykursýki (sykursýki I) eða meðgöngusykursýki. Samhliða þessu verður reglugerð um kostnaðarhlutdeild í búnaði fyrir sykursjúka breytt þannig að sömu reglur gildi fyrir alla, ólíkt því sem verið hefur. Þar er um að ræða strimla og hnífa sem þeir nota sem ekki geta nýtt sér fyrrnefnda blóðsykurnema eða eru með sykursýki II.

Rýmri reglur um ferðakostnað

Í janúar næstkomandi tekur gildi ný reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands. Með reglugerðinni verður m.a. komið til móts við þá sem þurfa reglulega að ferðast um lengri veg vegna blóðskilunar. Enn fremur er það nýmæli að greitt verður fargjald fylgdarmanns konu sem þarf að takast ferðalag á hendur til að fæða barn á heilbrigðisstofnun eða sjúkrahúsi. Aukin útgjöld vegna þessara breytinga eru áætluð um 25 milljónir króna á ári.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search