Search
Close this search box.

Moldvörpuborgin í Mogganum

Deildu 

Mikið hefur verið skrifað um samgöngur og samgöngusáttmálann undanfarið og ég fagna því að við séum að ræða leiðir til að létta á umferðinni. Hins vegar ber mikið á skoðunum þeirra sem telja að leysa megi núverandi hnúta og umferðartafir með fleiri og stærri vegum og mislægum gatnamótum. Þær skoðanir get ég ekki tekið undir. Nú síðast á þriðjudaginn birtist pistill í Morgunblaðinu þar sem greinarhöfundur vill gera okkur öll að moldvörpum sem ferðast neðanjarðar um höfuðborgarsvæðið í stórkarlalegum neðanjarðargöngum. Nú kann að vera að við greinarhöfundur séum sammála um að draga stórlega úr bílaumferð ofanjarðar en ég hugsa að við séum ósammála um leiðirnar að því. Moldvörpum til varnar þá eru þær stórkostleg staurblind neðanjarðardýr og nokkuð ólíkar okkur mannfólkinu. Látum það hins vegar liggja milli hluta.

Þegar samgöngusáttmálinn var undirritaður urðu mikilvæg tímamót. Loksins var sjónum beint að uppbyggingu vistvænna samgönguinnviða og fjölbreyttum ferðamátum ásamt því sem ríkið lýsti sig reiðubúið að taka þátt í uppbyggingunni. Hingað til hefur meginþungi samgönguframkvæmda verið á landsbyggðinni og merkilegt nokk hefur hærri fjárhæðum verið varið í almenningssamgöngur þar, borið saman við höfuðborgarsvæðið, þar sem yfir 63% íbúa landsins búa. Það er því ótrúlegt að lesa hverja greinina á fætur annarri þar sem borgarlína er töluð niður og á sama tíma er gamaldags hugsun um samgöngubætur haldið á lofti þar sem einkabíllinn og fjölgun gatna og akreina virðast vera einu svörin við hinni áleitnu spurningu: Hvernig leysum við úr umferðarflækjunni? Svarið er hins vegar ekki einþætt og ekki er til nein töfralausn. Samgöngusáttmálinn er þó ótvírætt ein leið að lausninni.

Þótt samgöngusáttmálinn hafi markað tímamót og ég fagnaði þegar hann var gerður hef ég líka verið gagnrýnin á hann í núverandi mynd og þá endurskoðun sem stendur yfir. Það hefur verið mín skoðun að hann sé of grár og að of miklu sé forgangsraðað í stofnvegaframkvæmdir frekar en göngu- og hjólastíga og borgarlínu. Í yfirstandandi umræðu hefur því verið fleygt fram að fresta borgarlínu enn frekar. Fari svo myndi það hafa hræðilegar afleiðingar. Við eigum öll eftir að tapa á því; umhverfislega, fjárhagslega og heilsufarslega. Því má ekki gleyma að borgarlína er ein af mörgum loftslagsaðgerðum sem við þurfum að innleiða og tíminn er nánast runninn frá okkur. Það eru mikil verðmæti sem fylgja virkum ferðamátum og vistvænum hágæða almenningssamgöngum í sérrými með styttri ferðatíma og minni mengun.

Í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir, að breyta ferðavenjum okkar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, væri skynsamlegast á allan hátt að flýta borgarlínu og fresta þá frekar stofnvegaframkvæmdum. Eins ætti að flýta framkvæmdum við göngu- og hjólastíga og flýta innleiðingu margvíslegra umferðargjalda. Ef eitthvað ætti að gera við stofnbrautir þá væri best að breyta þeim í fallegar og vistvænar borgargötur með öruggum þverunum fyrir gangandi, rúllandi og hjólandi fólk.

Stóra myndin er þessi: Við þurfum að ná kolefnishlutleysi fyrir 2030 og til þess þurfum við að fækka eknum kílómetrum og breyta ferðavenjum okkar. Borgarlína er hryggjarstykkið í því að okkur takist það en ekki moldvörpugöng undir öllu höfuðborgarsvæðinu eða mislæg gatnamót og vegir sem skera borgina í sundur. Ég vona að ábyrgðaraðilar samgöngusáttmálans hafi þetta hugfast við endurskoðun hans.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search