Search
Close this search box.

Mörg stór mál kláruð í þinglokum

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson birti eftirfarandi pistil að kvöldi dags 22. júní í tilefni þingloka:

Nú eru þinglok í höfn en síðustu daga höfum við klárað mörg stór og mikilvæg mál hér á Alþingi. Að mínu mati þá er afrakstur okkar góður.

Ýmis stór lífskjaramál eru komin í gegn. Frumvarp mitt um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins var samþykkt, með jákvæðum breytingum sem urðu til í samstarfi allra flokka í velferðarnefnd. Ég er einstaklega stoltur af þessu máli en um er að ræða stærsta skref sem tekið hefur verið í að bæta afkomu og auka réttindi örorkulífeyrisþega í áratugi.

Fjölmargar kjara- og velferðaraðgerðir til stuðnings langtímakjarasamningum voru afgreiddar. Þar á meðal hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og húsnæðisbóta, vaxtastuðningur, áframhaldandi uppbygging almennra íbúða og húsaleigulög sem auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda. Ég verð einnig að nefna sérstaklega gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum, sem munu draga úr fátækt barna, og hafa verið stórt baráttumál okkar Vinstri grænna í langan tíma. Allt eru þetta mál sem munu koma sérstaklega til móts við þá hópa sem verðbólga og háir vextir hafa leikið hvað verst. Eins og fram kom hjá forystufólki verkalýðshreyfingarinnar skiptu þær stuðningsaðgerðir sköpum til að unnt væri að ljúka langtímasamningum á vinnumarkaði.

Þá var samþykkt fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem mun vinna með okkur í því meginverkefni hagstjórnarinnar að ná niður verðbólgu og skapa forsendur til vaxtalækkunar sem er eitt stærsta kjaramál heimilanna í landinu. Þetta er ekki einfalt verkefni og krefst forgangsröðunar en ég er sannfærður um að við erum á réttri leið.

Loksins eignast Ísland Mannréttindastofnun, en stofnun hennar er meðal annars forsenda þess að við getum lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Stuðningi við Grindvíkinga verður haldið áfram. Það er mikilvægt að við höldum áfram að taka utan um Grindvíkinga með eins kröftugum hætti og mögulegt er. Það er hornsteinn góðs samfélags að þegar hamfarir eins og við höfum horft upp á í Grindavík ganga yfir að þá tryggi hið opinbera framfærslu og fyrirsjáanleika.

Ný lögreglulög voru samþykkt með afar mikilvægum og jákvæðum breytingum þannig að í reynd er nú um allt annað mál að ræða en fyrst kom fram í desember 2022. Lög um fiskveiðistjórn á grásleppu voru samþykkt með mikilvægri breytingatillögu Bjarna Jónssonar, þingmanns VG. Þá var sameining stofnana samþykkt sem mun styrkja náttúruvernd á Íslandi og er fyrsta skrefið að Þjóðgarðastofnun sem VG hefur lengi viljað koma á.

Hér tel ég aðeins upp hluta af þeim þingmálum sem nú hafa verið afgreidd. Við í VG höldum áfram að vinna að góðum málum þar sem öll í samfélaginu eru þátttakendur og þar sem við jöfnum kjörin, tryggjum mannréttindi allra hópa og sýnum jafnframt stjórnfestu. Við munum áfram vinna að því að bæta lífskjör þeirra sem verst standa, leggja áherslu á að jafna aðstæður og tækifæri fólks í samfélaginu og vinna að mannréttindum. Aðkoma VG að ríkisstjórn skilar okkur betra, jafnara og réttlátara samfélagi.

Á myndina vantar Evu Dögg Davíðsdóttur, sem var á þessum tímapunkti kvöldsins farin heim að sinna nýfæddu barni sínu. Eva Dögg er nýjasti þingmaður VG, en hún kom inn við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur. Eva Dögg var búsett í Þýskalandi með nýfætt barn þegar kallið kom en flutti heim til að sinna þingmennskunni. Eva hefur átt kröftuga innkomu á þingið og ég hlakka til að fylgjast með henni á komandi mánuðum og misserum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search