Search
Close this search box.

Múlaþing á að vera leiðandi í loftslagsmálum

Deildu 

Hamfarahlýnun af mannavöldum er eitthvað sem engin getur lengur skotið skollaeyrum við. Áhrifin á Íslandi eru margvísleg og geta haft miklar afleiðingar á innviði sveitarfélaga.

Í skýrslu Vísindanefndar frá 2018 var talið líklegt að rigninga- og leysingaflóð myndu aukast við hlýnandi veðurfar. Þetta fékk hið nýsameinaða Múlaþing heldur betur að reyna í desember síðastliðinn þegar hamfaraflóð féllu á Seyðisfirði með miklum afleiðingum fyrir íbúa og atvinnulíf. Afleiðingar loftslagsvárinnar eru sýnilegar um allan heim og það verður að grípa til aðgerða strax.


Við í Múlaþingi erum í kjöraðstæðum til að stíga fram og taka forystu meðal sveitarfélaga í þessum málum. Að mörgu er að huga og horfa þarf til ólíkra þátta s.s. atvinnuvega, framleiðslu, neyslu, samgangna og landnýtingar. Heimsfaraldur Covid 19 hefur sýnt okkur svo um munar hvað við getum með sameiginlegu átaki. Eins og með sóttvarnir skiptir megin máli að hver og einn axli ábyrgð. En ríki og sveitarfélög eiga að leggja línurnar til að auðvelda, styrkja og hvetja fjölskyldur og fyrirtæki í því að snúa stöðunni við. Þannig þurfum við að horfa til loftslagsvandans.


Hér eru nokkur dæmi um aðgerðir sem Múlaþing gæti verið leiðandi í:


ϖ Vinna þarf loftslagsstefnu fyrir sveitarfélagið og horfa til aðgerðaráætlunar Íslands í loftslagsmálum og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna við gerð hennar.


ϖ Mikilvægt er að grenndargámar fyrir flokkaðan úrgang séu aðgengilegir í öllum byggðarkjörnum og samræmt flokkunarkerfi sé í sveitarfélaginu.


ϖ Stuðningur við moltugerð innan sveitarfélagsins er forgangsmál og mikilvægt er að snúa viðhorfinu við frá því að verið sé að fjarlægja lífrænt sorp yfir í þá hugsun að verið sé að fullnýta lífræna auðlind, skapa störf og sporna við sóun.


ϖ Gjaldfrjálsar almenningssamgöngur milli byggðakjarna sveitarfélagsins í samstarfi við ríki og nærliggjandi sveitarfélög styrkir innviðina og gerir ungnum sem öldnum kleift að velja bíllausan lífstíl á stóru atvinnusvæði auk þess sem það auðveldar vöruskipti milli byggðakjarna og ýtir þannig undir meiri sjálfbærni sveitarfélagsins.


ϖ Á Fljótsdalshéraði eigum við nóg af heitu vatni, ylrækt og skógrækt eiga að hafa meira vægi og njóta markvissari stuðnings. Sama á við um lífrænan landbúnað en með þessu er hvatt til kolefnisbindingar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu.


ϖ Orkuskiptum þarf að flýta, við eigum að takmarka komu skemmtiferðaskipa sem fara yfir ákveðna losun og markaðssetja sveitarfélagið sem grænt samfélag. Í því felast mörg tækifæri til atvinnusköpunar og uppbyggingar.


Að lokum vil ég hvetja til þess að sveitarfélagið Múlaþing byrji fræðslu í umhverfismálum á leikskólastigi og styðji alla leik- og grunnskóla sveitarfélagsins til þess að gerast Grænfánaskólar því þannig náum við góðum árangri til lengri tíma.


Líkt og með Covid 19 er það ekki á færi einnar manneskju eða einnar þjóðar að leysa vandann. Þjóðir heims verða að vinna saman að þeim markmiðum að sporna gegn loftslagsvánni og besta leiðin er að byrja á því að taka til heima og vera öðrum sveitarfélögum, ríkjum og heiminum öllum fyrirmynd. Ávinningurinn mun skila sér margfalt til baka fyrir okkur og komandi kynslóðir.


Höfundur er lögfræðingur, sveitastjórnarfulltrúi í Múlaþingi og skipar annað sæti á framboðslista VG í Norðausturkjördæmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search