Search
Close this search box.

Náið samtal við vísindamenn og sérfræðinga.

Deildu 

Forsætisráðherra segir gagnrýni stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórnina vegna skorts á áætlunum um framhaldið í sambandi við kórónuveirufaraldurinn koma á óvart. Hún telur að búið sé að vinna úr hlutunum eins vel og hægt sé með nokkuð góðri samstöðu allra stjórnmálaflokka og samfélagsins alls.

„Það er ekki þannig að stjórnvöld, og það sem mér fannst beinlínis rangt í málflutningi stjórnarandstöðunnar, það er að stjórnvöld séu að skýla sér á bak við sérfræðinga. Það finnst mér ekki standast skoðun og stjórnarandstaðan verður að sætta sig við það að henni sé svarað, hún getur ekki kveinkað sér undan því þegar henni er svarað þegar hún fer með það sem ég kalla rangindi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hún segir að við nánari skoðun komi í ljós að faraldurinn hafi verið til umræðu hjá ríkisstjórn frá því í lok janúar, þegar fyrstu fréttir fóru að berast af veirunni. Þeirri aðferðafræði hafi verið beitt að vera í nánu samtali við vísindamenn og sérfræðinga um ákvarðanir sem hafi verið teknar.

Happ að ekki hafi gliðnað milli stjórnmálamanna og sérfræðinga

„Ég myndi telja það töluvert happ að það hafi ekki gliðnað á milli þeirra sem best þekkja og stjórnmálamanna í baráttunni við faraldurinn því það hefur gerst víða um heim, þar sem stjórnmálamenn hafa mælt með ýmsum aðferðum og gert ýmsa hluti sem hafa ekki beint notið viðurkenningar vísindamanna,“ segir Katrín.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndu ríkisstjórnina harðlega í gær fyrir að hafa ekki sett fram áætlanir um framhaldið út frá hinum ýmsu sjónarhornum. Þá sögðu þær það fráleitt að forsætisráðherra hafi sakað Þorgerði Katrínu um pólitíska tækifærismennsku og gagnrýndu stjórnvöld fyrir að hafa skýlt sér á bak við sérfræðinga.

„Við höfum svo sannarlega ekki skýlt okkur á bak við sérfræðinga, við höfum tekið ábyrgð á öllum þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar og þær hafa að sjálfsögðu ekki verið einfaldar og ekki hafnar yfir gagnrýni,“ svaraði Katrín í morgun.

„Hert eftirlit á landamærum mjög mikilvægt“

Hún segir vel koma til greina að harðari aðgerðum verði beitt á landamærum en það hefur verið mikið til umræðu síðustu daga, hvort herða eigi eftirlit á landamærum. „Nú er staðan þannig að ég óskaði eftir því við sóttvarnalækni að hann reyndi að setja niður yfirlit yfir hvaða valkosti við eigum til þess að herða eftirlit á landamærum því ég held að það sé mjög mikilvægt,“ segir Katrín.

„Þegar kom að því að við reyndum að opna landamærin meira, því þau voru aldrei lokuð, hér var bara krafa um fjórtán daga sóttkví, þá tel ég að við höfum farið mjög varfærna leið. Hún var að sjálfsögðu rædd, meðal annars við stjórnarandstöðuna, það var gerð hagræn úttekt á mögulegum áhrifum á því að halda áfram að vera með fjórtán daga sóttkví, á móti því að taka upp skimun.“

Sú úttekt sé nú í skoðun og verið sé að uppfæra hana. Meta þurfi hvað hafi gengið vel og hvað hafi ekki gengið vel. Sú úttekt sé jafnframt ekki hafin yfir gagnrýni en Helga Vala sagði í samtali við fréttastofu í gær að stjórnarandstaðan hafi aldrei fengið að sjá þá úttekt.

Þá þurfi einnig að taka mið af öðrum þáttum en sóttvarnarsjónarmiðum. Efnahagsleg sjóarmið, samfélagsleg- og lýðheilsusjónarmið skipti einnig miklu máli og leggja þurfi mat á þau að sögn Katrínar. „Núna þegar við nálgumst veturinn á Íslandi sem getur verið alveg nógu erfiður án heimsfaraldurs og hugsum um allar þessar vörður sem við sjáum fyrir framan okkur við hlökkum til þá auðvitað skiptir máli að við getum tryggt það að þetta líf geti gengið eins vel og mögulegt er. En það er ekki þannig að valmöguleikarnir séu þannig að landið sé galopið, það er hægt að herða aðgerðir á landamærum með ýmsum hætti og þess vegna óskaði ég eftir því að sóttvarnayfirvöld gæfu ákveðið yfirlit yfir þessa valkosti.“

„Það er yfirlýst markmið okkar í ríkisstjórninni í fyrsta lagi að tryggja best heilbrigðissjónarmiða, að við séum að tryggja varnir gegn veirunni, það er annað markmið að tryggja að samfélagið geti haldist gangandi. Það snýst um skóla, það snýst um íþróttir, það snýst um menningarlíf og það snýst líka auðvitað um að við getum átt einhverjar eðlilegar samgöngur.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Katrínu í heild sinni í spilaranum hér.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search