PO
EN
Search
Close this search box.

Námsgögn í framhaldsskólum

Deildu 

Í allflestum námsgreinum framhaldsskólanna er námsgagnakostur kominn til ára sinna og í mörgum greinum er verið að notast við erlendar kennslubækur, oftast enskar. Slíkt er ekki vænlegur valkostur þegar um er að ræða nám á íslensku og mikilvægt að nemendur hafi aðgang að góðu námsefni á íslensku. Vegna þessa langvarandi skorts hafa margir framhaldsskólakennarar þurft að búa til eigin námsefni. Námsefnisgerð er ekki hluti af starfslýsingum kennara í framhaldsskólum og í einhverjum tilfellum ástæða þess að vinnuvikur þeirra eru töluvert lengri en kjarasamningar segja til um.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir: „Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig”. Nú loksins liggur fyrir frumvarp þessa efnis með það að markmiði að tryggja gæði, framboð og fjölbreytileika námsgagna til að styðja við nám og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Gæði námsgagna ætti að vera forgangsmál og margfalda verður framlög í námsgagnasjóð og þróunarsjóð námsgagna enda segir í 3. grein laga um framhaldsskóla (92/2008) að ríkinu beri að styðja við þróunarstarf og þróun námsefnis í framhaldsskólum. Til fyrirmyndar væri að kortleggja stöðu námsefnis á landsvísu og nýta það sem kennarar hafa útbúið, gjarnan hver fyrir sig, á undanförnum áratugum. Í framhaldi af því þyrfti að greiða námsgagnasmiðum fyrir þá vinnu sem felst í að þýða, stað- og útfæra námsefni fyrir fjölbreyttan nemendahóp framhaldsskólanna. Þetta er sérlega tekið fram þar sem að þetta hefur ekki verið raunin. Hörgullinn á námsgagnaútgáfu hefur verið slíkur að átak þarf að hefjast fljótt auk þess sem að tryggja þarf eftirfylgni. 

Við námsgagnagerð er iðulega bent á smæð okkar markaðar. Með rafbókavæðingu er sá söngur enn háværari þar sem þær skila sér ekki á skiptibókamarkaði. Til að tryggja sífellda endurnýjun og aðgang þyrfti að vera hægt að greiða umsamið gjald til útgefanda fyrir notkun hverju sinni.

Hlutverk framhaldsskólanna er oft sagt tvíþætt, í fyrsta lagi að undirbúa nemendur fyrir þátttöku í samfélaginu og í öðru lagi að undirbúa þá fyrir enn frekara nám. Það hlutverki skólanna sem snýr að samfélagsþátttöku, þarf námið því að byggja upp almenna þekkingu og að nemendur geti í framtíðinni lesið sér til gagns og til dæmis fylgst með fréttum sem snúa að hvers kyns fræðum og vísindum. Hér er sérlega gagnlegt að hafa íslensk hugtök til að lýsa fyrirbærum. Í hlutverki framhaldsskólanna sem snýr að  undirbúningi fyrir frekara nám eru alþjóðleg hugtök kynnt til sögunnar en dýrmætt er að til séu orð sem lýsa fyrirbærum. Í námsgreinum eins og líffræði þar sem nýjungar eru daglegt brauð er nýyrðasmíði mikilvæg. Við höfum verið heppin að eiga góða nýyrðasmiði, í sumum tilfellum skortir þó samræmi og margar þýðingar eru fyrir hvert hugtak. 

Gjaldfrjáls námsgögn fyrir öll börn

Í áðurnefndu frumvarpi er horft til þess að börn að 18 ára aldri eigi rétt á gjaldfrjálsum námsgögnum enda það í samræmi við 28. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (aðgangur að menntun) og lögum um framhaldsskóla þar sem segir í  51. grein laga um framhaldsskóla: „Námsgögn. Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings.”  

Það er nefnilega  svo að í 45. grein sömu laga (gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla) eru víðtækar heimildir til gjaldtöku. Þar má heimta innritunargjald, efnisgjald og gjald fyrir rafrænt námsefni en ekki fyrir námsefni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun hver skóla. Þarna þarf að taka af allan vafa og setja námsgögn og þróunarstarf skóla í þá reikniformúlu sem notuð er til útreiknings fjármagns hvers skóla en ekki setja allt fjármagnið aðeins í sjóð til úthlutunar. Það segir sig sjálft að það felst félagslegur ójöfnuður í því að innheimta gjöld af nemendum og þeim þannig mismunað eftir félagslegri- og efnahagslegri stöðu. Talið er að kostnaður hvers framhaldsskólanema er varðar námsgögn sér um 40 þúsund á hverju skólaári. Hér erum við að kalla eftir því að farið verði að lögum og um leið eftir fjármunum til að búa til og viðhalda námsefni fyrir nám í framhaldsskóla sem og að námsgögn allra nemenda á framhaldsskólastigi verði gjaldfrjáls enda slíkt mikilvæg fjárfesting til framtíðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gjaldfrjáls námsgögn komi að fullu til framkvæmda eftir fimm ár eða árið 2029, samþykkjum við að það taki svo langan tíma að framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna?

Hólmfríður Sigþórsdóttir er formaður Samlífs, samtaka líffræðikennara og flokkráðsfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, leik- og grunnskólakennari, oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í sömu hreyfingu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search