Search
Close this search box.

Náttúruvernd hefst í heimabyggð

Deildu 

Lög um náttúrvernd segja m.a. að náttúruverndarnefndir skuli „stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar.“ Starfa skal náttúruverndarnefnd í öllum sveitarfélögum og ábyrgð þeirra á náttúruvernd er því mikil.

Við þurfum að gera betur

Fátt heyrist af náttúruvendarnefndum, hvers vegna? Er lagaskyldu um þær fullnægt með færslu verkefna til annarra nefnda með næg verkefni fyrir, jafnvel andstæð náttúruvernd, er þetta skeytingarleysi, eða hvað? Að fjórar heimastjórnir hafi hlutverk náttúruverndarnefnda(r) í Múlaþingi hefur síst aukið fréttir af náttúruverndarstarfi. Kann slíkt að gera ábyrgð óljósa og vinna gegn hag náttúrunnar? Hvað ef upp kæmi deila á milli tveggja heimastjórna um mál á gömlum hreppamörkum, t.d. Öxi?

Andi og markmið laga um náttúruvernd er að varðveita eftir föngum náttúru landsins og að hún fái að þróast á eigin forsendum, stuðla að endurheimt og auknu þoli vistkerfa og að vernd og sjálfbærri nýtingu náttúrugæða og auðlinda. Loks að stuðla að samskiptum manns og náttúru og tryggja almannarétt til að fara um landið og njóta náttúru þess. Samfélagið vill hröð orkuskipti sem má ekki kosta óþörf náttúrspjöll. Náttúruverndarnefndir eiga og geta hér gegnt veigamiklu hlutverki, vilji sveitarstjórnir það og skapi til þess aðstæður.

Göngum lengra í náttúruvernd

Fyrir aldarþriðjungi voru um eða yfir 20 sveitarfélög á Austurlandi en eru nú fjögur. Náttúra Austurlands leggur sveitarfélögunum til land og tengir þau hvert öðru. Við vinnum að því og færumst nær því marki að verða eitt atvinnusvæði. Fyrir Austurland verður eitt skipulag haf- og strandsvæða og nýverið var í samráðsgátt stjórnvalda tillaga að svæðisskipulagi fyrir Austurland 2022 – 2044. VG í Múlaþingi vill ganga lengra í náttúrvernd og skoða mætti kosti þess að sveitarfélög á svæðinu, tvö eða fleiri, sameinist um eina öfluga náttúruverndarnefnd sem málsvara náttúrunnar. Náttúruverndarlög segja m.a.: „Sveitarfélög geta haft samvinnu við nágrannasveitarfélög um starfrækslu náttúruverndarnefnda“. Heilbrigð náttúra og náttúrugæði eru í senn ein meginforsenda bæði hagsældar og lýðheilsu.

Göngum því lengra og vinnum markvisst að náttúruvernd í heimabyggð. Ferðaþjónusta skapaði þjóðinni meiri gjaldeyri en nokkuð annað síðustu árin fyrir Covid. VG mun áfram vinna gegn laxeldi í Seyðisfirði og standa vörð um víðerni Múlaþings.

Höfundur er læknir, fulltrúi VG í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings og skipar 3. sæti á lista VG í Múlaþingi fyrir kosningar 14.05.2022

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search