Search
Close this search box.

Nöfn vændiskaupenda verði birt

Deildu 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri-grænna, vilja að nöfn vændiskaupenda verði birt og að sektir hækki. Báðar hafa tjáð sig um vændi á Íslandi í dag í kjölfarið á umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks.

„Talað er um að framboð á vændi sé yfirdrifið og að það sé jafn auðvelt að kaupa vændi eins og að panta mat. Varla viljum við hafa samfélagið með þessum hætti, að það sé bara eins og að kaupa pítsu að panta vændi,“ sagði Bjarkey í þingræðu á Alþingi í dag.

Bjarkey rakti lagabreytingar sem ráðist var í fyrir um áratug þegar kaup á vændi voru gerð refsiverð. „Refsingar við vændi eru þó allt of vægar hér á landi að mínu mati og enn ríkir nafnleynd í slíkum dómum ólíkt því sem tíðkast hjá frændum okkar í Svíþjóð þar sem vændiskaupendur eru nafngreindir,“ sagði Bjarkey. „Maður skyldi ætla að nafngreining myndi hafa áhrif á þá sem velta fyrir sér þessum fyrirlitlegu viðskiptum og það finnst mér að við eigum að taka upp.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, flokkssystir Bjarkeyjar á þingi, fjallaði um vændi út frá umfjöllun Kveiks á Facebook-síðu sinni í dag. Hún vill, eins og Bjarkey, afnema nafnleynd í dómum yfir vændiskaupendum. „Við getum ákveðið að bregðast við því að vændi hefur aukist með skýrum og afdráttarlausum hætti. Við getum ákveðið að herða viðurlög við vændiskaupum; birt nöfn vændiskaupenda og hækkað sektir. Hert viðurlög við því að kaupa aðgang að líkama annarrar manneskju. Til þess þarf pólitískan vilja. Ég er meira en til í það.“

Bjarkey gerði afleiðingar vændis að umræðuefni. „Þó að til séu þeir einstaklingar sem skilgreina sig sem hamingjusömu hóruna eru fleiri sem glíma við alvarlegar afleiðingar þess að hafa starfað við vændi,“ sagði Bjarkey. „Þá getur reynst gríðarlega erfitt fyrir fólk að losna úr vændi og málaflokkurinn er flókinn viðureignar fyrir lögreglu eins og endurspeglast meðal annars í þeim stóra hópi þolenda vændis sem hafa leitað sér aðstoðar hjá Bjarkarhlíð.“

(Frétt af RÚV)

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search