Search
Close this search box.

Norðrið í brennidepli

Deildu 

Ísinn á heimskautasvæðunum er stærsti og einn næmasti hitamælir veraldar. Við mennirnir kunnum að lesa á hann en bregðumst ekki við nægilega skjótt og örugglega. Engu að síður er tími til stefnu, nú þegar heimsmeðalhiti á ári hefur hækkað um eitt stig á nokkrum áratugum. Ég tek undir ákall þeirra sem vilja herða á aðgerðum, minnka losun kolefnisgasa og auka bindingu kolefnis. Ef okkur tekst ekki rétt og vel upp, stefnir í gríðarleg vandræði.

Hér og nú höfum við þó ekki náð neyðarástandi í þeirri merkingu sem það hugtak hefur í rekstri og viðbrögðum sveitarfélaga og ríkis. Fylgjumst með upplýsingum helstu alþjóðavísindastofnana og færum meginmarkmið samfélaga í loftslagsmálum framar í tíma.

Það er sérstakt umhugsunarefni, og mikil hvatning til aukins viðnáms, að hitafar á norðurslóðum hækkar tvöfalt hraðar en heimsmeðaltalið. Það endurspeglast í áhuga og umtali sem norðurslóðir vekja. Hefðbundið tal um tækifæri og ógnanir er áberandi. Rætt er um sjálfbæra atvinnuvegi á þessum slóðum. Það samrýmist ekki öllum náttúrunytjum en getur gert það í sumum greinum. Dýra- og skógarnytjar geta verið sjálfbærar. Ferðaþjónusta getur nálgast það. Flutningsleiðir kunna að opnast og geta þrifist vegna orkuskipta í skipaflutningum. En jarðefnagröftur og gas- eða olíuvinnsla geta aldrei talist sjálfbær iðja.

Líklegt er að samfélög í norðri nýti óendurnýjanlegar auðlindir í einhverjum mæli en það verður að koma í veg fyrir, með alþjóðlegu átaki, að málmnámur, olíu- og gaslindir og jarðefnaútflutningur verði alfa og ómega norðursins. Slíkt færist í vöxt. Kínversk, rússnesk, bandarísk, kanadísk, norsk og áströlsk fyrirtæki eru þar fremst í flokki. Endurómur af stefnunni heyrist á fjölþjóðafundum, hjá stjórnvöldum stórvelda og heimastjórnum landsvæða sem sjá sér auðveldari leið en ella til sjálfstæðis.

Ábyrgð á nýtingu og vernd norðurslóða er hvílir svo á ríkjunum Norðurskautsráðsins en einnig á alþjóðasamfélaginu og þar með á báða bóga. Sérréttindi landa samkvæmt alþjóðalögum, t.d. nytjaréttur innan efnahagslögsögu, mega ekki vera skilyrðislaus vörn fyrir ósjálfbærum nytjum.

Óleysanleg mótsögn felst í því að ætla að nýta helstu auðlindir norðursins með gríðarlegu kolefnisspori en vilja vinna um leið gegn umhverfisbreytingum sem sömu nytjar valda. Enda alkunna að ekki má nýta nema um þriðjung þekktra birgða í jörðu af kolum, olíu og gasi, ef sæmilega vel á að fara.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search