EN
PO
Search
Close this search box.

Nóvemberkosningar framundan

Deildu 

Sunna Valgerðardóttir skrifar:
Ríkisstjórnarsamstarfið er komið á endastöð eftir tilkynningu forsætisráðherra um stjórnarslit og beiðni hans til forseta Íslands um að rjúfa þing. Forsetinn hittir formenn allra flokka á Alþingi í dag og munu niðurstöður um kjördag liggja fyrir innan tíðar. Að öllum líkindum ganga Íslendingar til Alþingiskosninga þann 30. nóvember næstkomandi, en ljóst er að kosningabaráttan er ekki lengur undir rós – hún er formlega hafin. 

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG og innviðaráðherra, sagði í fréttum í gær að þessi ákvörðun hafi komið á óvart og tók Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra, tók í sama streng, enda höfðu þau fundað með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, daginn áður þar sem ekkert benti til þess að svona tilkynning væri í uppsiglingu. 

Bjarni sagði slitin ekki einungis snúast um gjörólíkar skoðanir Sjálfstæðisflokks og VG þegar kemur að útlendingamálum, enda sé ágreiningur um fjöldann allan af öðrum málum. Hann nefndi þar lagareldi, orkumál og rammaáætlun. 

Svandís undirstrikaði að þó að þessi mál væru vissulega hvað erfiðust þegar kæmi að samstarfi VG og Sjálfstæðisflokks, þá væru þetta ekki málin sem skiptu hvað mestu máli akkúrat núna. 

„Brýnust eru efnahagsmálin, málefni venjulegs fólks. Að ná endum saman. En nú kemur það í ljós í yfirferð ráðherra að það eru önnur mál sem vega þyngra, eins og tilteknar breytingar á útlendingalögum,“ sagði Svandís við RÚV. „Þetta hlýtur líka að vera ákveðið umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn, við höfum fundið fyrir þrekleysi hjá þeim og þingflokkurinn þeirra bugaður til langs tíma og forsætisráðherra metur það svo að hann geti ekki byggt á því liði sem þar er.“

Og tíminn er naumur. Nú þarf að hlaupa hratt, finna út úr listum og brýna áherslur fyrir komandi kosningar. Það hefur einu sinni gerst áður á lýðveldistímanum að kosið er í nóvember, en það er rúm öld síðan. Ef Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, fellst á þingrof í vikunni verður að öllum líkindum kosið 30. nóvember, en kosningar eiga að fara fram eigi síðar en 45 dögum eftir að þingrof er kunngjört.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search